Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Óttast fiskidauða í Þjórsá

04.11.2011 - 18:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Langstærstur hluti fiskistofna í Columbia ánni í Bandaríkjunum dó út þegar virkjað var í ánni. Bandarískur prófessor segir að hið sama geti gerst í Þjórsá.

Landsvirkjun fyrirhugar að reisa 130 megawatta virkjun við Urriðafoss í neðri hluta Þjórsár. Allar fisktegundir sem finnast í fersku vatni á Íslandi eru í ánni, þar á meðal lax og silungur.

Margaret J. Filardo prófessor í líffræði og forstöðumaður Fiskvegamiðstöðvarinnar í Oregonfylki í Bandaríkjunum, telur að virkjunin geti haft afar neikvæð áhrif á lífríki fiska í ánni.

Í erindi sem Filardo hélt í Háskóla Íslands í gær kom fram að stíflur og virkjanir í ám valdi mikilli röskun á vatnafari, sem skaði lífríkið með afdrifaríkum afleiðingum. Líklegt sé að það gerist við Urriðafoss. Filardo segir aðstæður í Columbia ánni sambærilegar við þær sem fyrirfinnast í Þjórsá.

Landsvirkjun áformar að reisa laxastiga við stífluna til að koma göngufiski áfram upp ána. Filardo segir að það hafi lítil áhrif - rannsóknir sýni að til lengri tíma litið deyi fiskistofnar samt sem áður út.