Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Óttast ekki útilokun Íslendinga

16.06.2014 - 09:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Það er sérkennilegt og jafnvel óviðeigandi að einni mestu fiskveiðiþjóð í Norður-Atlantshafi sé ekki boðið til fundar á borð við hafráðstefnuna Our Ocean. Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra.

Talað var við Sigurð Inga Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hann sagði ákvörðun Bandaríkjamanna um að beita fyrir sig svokölluðu Pelly-lagaákvæði og bjóða Íslendingum ekki til alþjóðlegrar hafráðstefnu vegna hvalveiða ekki marka kaflaskil í samskiptum þjóðanna, og segist ekki hafa orðið var við umræðu um málið erlendis.

Sigurður Ingi sagði það gáfulegast og skynsamlegast að menn settust niður og ræddu saman þegar upp kæmu deilumál. 
Varðandi þetta þá finnst mér það sérkennilegt og jafnvel óviðeigandi að einni mestu fiskveiðiþjóð í Norður-Atlantshafi sé ekki boðið til slíks fundar. Það er kannski rétt að minna á að þar vestra er eitt og hálft eða tvö ár síðan þeir verðlaunuðu okkur fyrir fiskveiðistjórnunarkerfi fyrir hvað það væri ábyrgt og skynsamlegt og kannski eitt af bestu kerfum í heimi,“ sagði Sigurður Ingi.

Hvalveiðivertíðin hófst í gær og stendur næstu þrjá mánuði, en sjávarútvegsráðherra ákvað í lok síðasta árs að heimila veiðar á 154 langreyðum á vertíðinni í sumar. Sigurður Ingi sagði ekki tilefni til þess að endurskoða það sérstaklega vegna hættu á því að Ísland verði útilokað frá umræðu um málefni hafsins. Nei ég hef engar áhyggjur af því að menn vilji ekki hlusta á okkar sjónarmið, vegna þess að okkur hefur gengið vel og það hefur verið horft til okkar - ímynd okkar er traust þegar kemur að sjálfbærri nýtingu og við erum á grundvelli sjálfbærrar nýtingar að nýta hvalaafurðir,“ sagði Sigurður.