Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óttast ekki myndskeið af Klaustri

05.02.2019 - 17:19
Mynd:  / 
Bára Halldórsdóttir, sem tók upp samtal sex þingmanna á Klaustri, segist engu kvíða þó svo að upptökur verði birtar af Klaustri og nágrenni þess kvöldið sem hún tók upp samtalið. Hún vísar því á bug að hún hafi þóst vera ferðamaður til að taka upp samtal þingmannanna.

Lögmaður fjögurra þingmanna Miðflokksins sem voru á Klaustri krefst þess að Persónuvernd afli myndefnis sem sýni mannaferðir fyrir utan Klaustur og hótelið Kvosina. Í bréfi til Persónuverndar segir hann Bára hafi tekið sér gervi erlends ferðamanns og hegðað sér sem slíkur.

Bára var í viðtali í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í dag og var meðal annars spurð út í klæðaburð. Hún sagði að það hefði rifjast upp fyrir sér að myndir hefðu verið teknar á stað þar sem hún var áður en hún fór á Klaustur. Því viti hún nákvæmlega hvernig hún var klædd. „Ég var í stuttermabol frá gamalli vinkonu minni sem er dragdrottning, svona merchandise svörtum, svörtum gallabuxum og í svörtu úlpunni minni í svörtu skónum mínum með sætu litlu töskuna mína sem er svolítið bleik,“ sagði Bára. „Ég held að ekkert af þessu sé neitt sérstaklega túristalegt. Eru það ekki Íslendingarnir sem eru allt allir í svörtu?“

Bára hefur áður sagst hafa verið með ferðamannabæklinga á Klaustri kvöldið afdrifaríka. „Ég var með túristabæklinga af því að ég var skoða þá út frá pælingun sem ég var búin að vera með vegna túrista sem ég var búin að vera að hitta,“ sagði Bára í Síðdegisútvarpinu. „Það er auðvitað hægt að álykta ýmislegt af ýmsu sem maður sér en það var ekki upprunalega viljandi meint þó svo að það hafi virkað þannig.“

Sem fyrr neitar Bára því að upptökurnar hafi verið skipulagðar eða að fleiri hafi komið að þeim. „Ég er mjög glöð yfir því ef þessar myndbandstökur koma fram. Þær sýna bara nákvæmlega mig labbandi út úr bílnum mínum.“