Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óttast ekki málaferli vegna Klausturupptöku

07.12.2018 - 18:30
Mynd:  / 
Bára Halldórsdóttir, sem tók upp samtal sex þingmanna á Klausturbar, segist ekki hafa áhyggjur af mögulegum málaferlum vegna upptökunnar. Hún yrði stolt af sakaskránni.

Bára segir að hún hafi í fyrstu ekki vitað hvað hún ætti að gera við upptökuna en síðan talið best að fjölmiðlar skæru úr um hvort efni upptökunnar væri eitthvað sem væri birtingarhæft. 

„Ég hef ekki orku til að vinna úr svona, ég að fara að pósta þessu á netið hefði mér þótt frekar vafasamt. Ég treysti því eftir að hafa skoðað fjölmiðlaumfjöllun síðustu ár að þeir myndu taka þessu ábyrgt og ég gæti treyst því að lenda ekki í súpunni með þetta. Ég vissi í raun og veru ekki hvar minn réttur stæði í þessu, þótt að mér fyndist nauðsynlegt að taka þetta upp.“

Báru óraði ekki fyrir því að viðbrögðin yrðu eins mikil og raun varð. Hún segir að hún hafi ákveðið að stíga fram vegna þess að hún áttaði sig á því að hún féll í alla hópa sem talað var illa um í samtalinu. Henni hafi þótt mikilvægt að hennar persóna myndi ekki trufla umræðuna um það sem fram kom í upptökunni. 

Hefurðu áhyggjur af því að einhver þingmannanna sex höfði mál gegn þér? „Ég hef ekki áhyggjur af því. Það getur vel verið að það gerist að ég lendi í einhverjum málaferlum. Ef það gerist þá gerist það bara. Ég held að ég sitji stolt með það á minni sakaskrá ef ég yrði dæmd fyrir þetta.“ 

Mynd:  / 
Hér má sjá viðtalið við Báru Halldórsdóttur í heild sinni.