Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Óttast aukna neyslu verði kannabis lögleitt

03.10.2017 - 09:57
Mynd: Óðinn Jónsson / RÚV
Sex prósent Íslendinga, sem eru fæddir á tímabilinu 1970 til 1985, hafa verið lagðir inn á sjúkrahúsið Vog vegna kannabisfíknar. Samtals eru þetta tæplega fimm þúsund manns. Þórarinn Tyrfingsson, fyrrum yfirlæknir á Vogi, segir að mikil afneitun sé í samfélaginu gagnvart þeim vanda sem kannabisfíkn er.  

Hann segir að þeir sem leiti á Vog séu ekki aðeins í neyslu, heldur með miklu meiri vanda. „Það er sagt að það sé vandi ef þú ert með tvö vandamál og þeir koma auðvitað ekki á Vog. Þeir sem koma eru með sex eða fleiri greiningarskilyrði uppfyllt.  Þeir eru félagslega óvirkir og bera mikinn félagslegan og geðrænan skaða og við erum að tala um 7000 einstaklinga af þessu í heild og þarna í þessu aldursbili þeirra sem eru fæddir 1970 til 1985 erum við að tala um 5.000,“ segir Þórarinn. Rætt var við hann í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Fleiri 30 til 40 ára neyta kannabis

Kannabisneysla fólks á milli 30 og 40 ára hefur aukist, öfugt við hjá öðrum aldurshópum. Þórarinn telur að ef kannabisneysla verði gerð lögleg þá aukist neyslan einnig hjá fólki sem komið er yfir fertugt. Viðhorf til neyslu sé annað hjá eldra fólki og það vilji síður neyta ólöglegra efna. „Ef þú ert orðinn 40 ára og ert háður einhverjum vímuefnum þá breytir þú bara yfir í lögleg. Það er bara eðli málanna. Það er aðal verkun nú um tíma, þess að gera efnið ólöglegt. Að eldri aldurshóparnir nota það ekki.“

Minni geta fólks í daglegri neyslu

Aðspurður um afleiðingar kannabisneyslu, þá segir Þórarinn að nýlega hafi verið birt rannsókn og að ekki þurfi að vera í neinum vafa um að afleiðingarnar séu skaðlegar. Fólk í daglegri neyslu hafi skert minni og skerta getu, bæði félagslega og andlega. „Ef fólk byrjar ungt í neyslu hefur það varanleg áhrif á greindarvísitölu. Kannabis er miklu stórtækara í að breyta geðheilsunni. Við erum öll í afneitun á þetta. Hann er ótrúlegur þessi kannabisvandi.“ 

Umræða hefur verið um að lögleiða kannabisefni hér á landi. Þórarinn er mjög mótfallinn því að þær hugmyndir verði að veruleika og kveðst hafa þungar áhyggjur af afleiðingum þess.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.