Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Óttast atvinnuleysi í Eyjum vegna loðnubrests

04.02.2020 - 19:24
Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV/Landinn
Vestmannaeyingar urðu af tæpum átta milljörðum króna í fyrra vegna loðnubrests, samkvæmt nýrri skýrslu. Bæjarstjórinn segir áhrifin alvarlegri en búist var við og óttast aukið atvinnuleysi.

Engin loðna var veidd við Íslandsstrendur í fyrra. Áhrifin af þessu voru gríðarleg, og líklega hvergi meiri en í Vestmannaeyjum, en þar eiga menn mikið undir loðnunni. Bæjaryfirvöld í Eyjum létu gera skýrslu um áhrifin af loðnubrestinum á sveitarfélagið, og var hún kynnt í bæjarráði í dag. 

Helstu niðurstöður eru þær að uppsjávarfyrirtækin í Eyjum urðu af 7,6 milljarða króna tekjum og önnur fyrirtæki urðu af rúmlega 900 milljónum. Bærinn varð af rúmlega 160 milljóna útsvarstekjum og stéttarfélög og lífeyrissjóðir töpuðu 160 milljónum. Þá nema tapaðar launatekjur í bænum að minnsta kosti einum milljarði. Loðnubresturinn hafði áhrif á 350 starfsmenn í bænum og hann var ígildi 60 ársverka.

„Sjokkerandi“

„Við vissum að þetta yrði mikið en það var samt svolítið sjokkerandi að sjá þetta á blaði. Hvernig þetta hríslast niður allt samfélagið. Og þetta eru enn meiri áhrif en ég bjóst við,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

Og framhaldið er ekki bjart því allt útlit er fyrir að lítil eða engin loðnuvertíð verði á þessu ári heldur.

„Þetta getur haft mjög mikil áhrif fyrir Vestmannaeyjar og fyrir fólkið og fyrirtækin sem tók þennan skell í fyrra. En fólkið og fyrirtækin taka ekki annan skell. Þannig að aðilar þurfa að koma að. Ríkið þarf að koma að.“

En hvað gætu stjórnvöld gert í þessari stöðu?

„Stjórnvöld verða að setjast niður með okkur og það þarf kannski að vinna svona greiningar á fleiri stöðum. Og þau verða að koma með einhvers konar mótvægisaðgerðir. Það gengur ekki að samfélögin taki mörg ár í röð á sig svona gríðarlegt högg.“

Óttastu aukið atvinnuleysi?

„Já. Auðvitað geri ég það. Þetta eru mikil uppgrip.“

Íris segir að loðnubresturinn hafi bein áhrif á 20 prósent heimila í Eyjum. Málið snúist því ekki bara um útgerðarfyrirtækin, heldur samfélagið í heild sinni. Íris kynnti Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegsráðherra niðurstöður skýrslunnar í gær.

„Fólk úti á landi og fólk sem býr í sjávarbyggðum hefur áhyggjur og áttar sig á því að loðnubrestur er eitthvað sem þarf að hafa verulegar áhyggjur af,“ segir Íris.