Óttast að yfir þúsund séu látin í Mósambík

18.03.2019 - 19:39
Erlent · Hamfarir · Afríka · Malaví · Mósambík · Simbabve
Mynd:  / 
Óttast er að yfir þúsund hafi látið lífið þegar fellibylurinn Idai gekk yfir suðausturhluta Afríku. Bylurinn olli mikilli eyðileggingu í þremur löndum og hefur neyðarástandi verið lýst yfir í Simbabve.

Fellibylurinn Idai náði landi í Mósambík seint á fimmtudag og var vindhraði þá um 177 kílómetrar á klukkustund. Hann skall svo á Simbabve á laugardag og skilur eftir sig gríðarlega eyðileggingu og mósambíska borgin Beira hefur orðið einna verst úti. Hún er fjórða stærsta borg landsins og þar býr um hálf milljón manna. Um 90 prósent borgarinnar eru skemmd eða jafnvel rústir einar, að sögn Rauða krossins. Bjarga hefur þurft fólki úr trjám og Idai hefur valdið miklu manntjóni í Mósambík, Simbabve og Malaví, samtals hafa hátt í 300 farist. 

Filipe Nyusi, forseti Mósambík, óttast að yfir þúsund séu látin í landinu. Nyusi flaug yfir Beira og sagði átakanlegt að horfa upp á lík fljótandi um í gjörónýtri borginni. Útlit er fyrir áframhaldandi rigningu þar og í Simbabve. Emmerson Mnangawa, forseti Simbabve, hefur lýst yfir neyðarástandi þar í landi. Stór gígur sem myndaðist í v egi hefur lokað leiðinni til Chimanimani sem er fjallent svæði í austurhluta landsins. Breska ríkisútvarpið greinir frá því að hjálparteymi komist ekki þangað og ættingjar hafi ekki náð tali af ástvinum þar. 

 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi