Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Óttast að prestsetrið verði lagt niður

29.04.2015 - 17:17
Biskupsstofa, Biskup Íslands, Kirkjuráð
 Mynd: RÚV
Biskupsstofa leggur til að Mosfellsprestakall og Reynivallaprestakall í Kjós verði sameinuð. Kjósverjar óttast að prestsetrið á Reynivöllum verði lagt niður og mótmæla áformunum.

Biskupafundur lagði fram tillögu um sameiningu prestakallanna fyrr á árinu og að sóknarprestur og prestur í Mosfellsprestakalli þjóni því. Hálf staða verði auglýst til viðbótar. Nú er Mosfellsprestakalli þjónað af tveimur prestum og Gunnar Kristjánsson hefur þjónað Reynivallaprestakalli. Gunnar kveður söfnuð sinn eftir 40 ára starf um hvítasunnuna og flytur frá Reynivöllum.

Tillagan um sameininguna er nú í umsagnarferli og hafa sóknar- og héraðsnefndir frest til 1. júlí til að skila inn umsögnum. Kjósverjar héldu almennan íbúafund í Ásgarði í gærkvöld og þar var samþykkt ályktun þar sem fyrirhugaðri sameiningu var mótmælt.

Sigríður Klara Árnadóttir, sem er  í sóknarnefnd Reynivallasóknar, segir íbúar óttist að þjónustan minnki og að prestsetrið verði lagt niður. Þjóðkirkjan eigi undir högg að sækja sem sé mjög miður. „Ég tel að nú sé kominn tími til að kirkjan snúi vörn í sókn. Við eigum að vera stolt af okkar þjóðtrú og bera virðingu fyrir öðrum trúarbrögðum í leiðinni. Við eigum að bera höfuðið hátt og halda við kirkjum, sérstaklega svona gömlum jörðum, sem hafa mikið menningargildi. Á Reynivöllum var manntalið 1703 gert og staðurinn er samofinn sögu þjóðarinnar,“ segir Sigríður.

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV