Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Óttast að mengunin rjúki aftur upp

27.10.2014 - 19:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Íbúar á Höfn í Hornafirði höfðu varann á í dag vegna brennisteinsmengunar frá Holuhrauni. Ekki hefur þó orðið vart við álíka megnun og í gær. Nettengdur mælir verður að líkindum settur þar upp á morgun.

Mest fór mengunin yfir 21.000míkrógrömm í gær á móts við Hoffell en það er þrefalt á við það sem áður hefur mælst. Í bænum á Höfn mældist mengunin líka vel yfir fyrra meti eða á bilinu 10.000-14.000 míkrógrömm.

Elín Freyja Hauksdóttir, læknir á staðnum, sem nú er reyndar í verkfalli var á vaktinni í gær. Hún var í símasambandi við astmasjúklinga sem fundu vel fyrir menguninni: „Þetta eru mest einkenni frá efri öndunarvegi. Það er sviði í koki og nefi og augum og jafnvel óbragð í munni og svo eru sumir sem  fá einkenni niður í barkann. Fólk sér þetta sem hamfaraástand og er þar af leiðandi ekki að gera svo mikið veður út af þessu en ráðstafanir við hæfi".

„Ég var bara úti við að ditta að húsinu og svo fór ég að finna fyrir óþægindum í hálsi ég vissi ekki hvort ég var að fá kvef eða eitthvað, en svo fór meður að finna bragð á vörunum. En við fórum bara eftir leiðbeiningum sem eru inni á vef almannavarna og lokuðum gluggum og hækkuðum á ofnum og settum tuskur blautar með matarsótablöndu í herbergin og fram og skrúfuðum frá sturtu og vaski", sagði Grétar Már Þorkelsson.

Og hafði þetta einhver áhrif?

„Ja, ég veit það ekki. Það var bara heitt í nótt allavega. Þetta hlýtur að hafa einhver áhrif fyrst þeir ráðlögðu þetta", sagði Grétar.     

Foreldrar voru beðnir að aka börnum í skóla eða að láta þau vera með klút fyrir vitum sér. 

„Það voru flestir sé ég sá með buff eða einhvern þannig klút fyrir andlitinu. Ég var með buff og klút. Ég tók þetta svo alvarlega", sögðu Þorgerður María og Anna Lára.

Í dag mældist mengunin á bilinu 600 til 2.000 míkrógrömm á Höfn og mældist hæst 3.000 í Suðursveit. Lögreglan mælir með handmælum og því er óvíst að hún hitti á mestu mengunartoppana. Til stendur að setja upp nettengdan mæli á Höfn á morgun