Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óttast að margir biðji um persónuupplýsingar

09.07.2018 - 19:30
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Forráðamenn margra fyrirtækja óttast að að fjöldi fólks krefji þau um aðgang að persónuupplýsingum sínum þegar ný lög taka gildi á sunnudag segir forstjóri Persónuverndar. Fyrirtæki og stofnanir sem brjóta gegn lögunum eiga yfir höfði sér háar sektir.

Persónuupplýsingar eru allar þær upplýsingar sem hægt er að rekja til einstaklings. Til dæmis kennitala, símanúmer, bílnúmer og raðnúmer snjalltækis og IP-tala tölvu. Mjög margir safna persónuupplýsingum. Reglur um þetta verða hertar.

„Það er gríðarleg réttbót fyrir einstaklinga sem er þar að finna,“ segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.

Ávallt þarf að hafa heimild til að vinna með persónuupplýsingar, t.d. samþykki, samning eða lagaheimild.

„Samþykkið þarf að vera skýrt. Þannig að einstaklingur sem hefur samband við fyrirtæki og ætlar að fara í þjónustu þess fyrirtækis, þarf að fá að vita með einföldum hætti, einfaldri framsetningu, hvaða persónuupplýsingar viðkomandi fyrirtæki vinnur með. Langir notendaskilmálar upp á jafnvel 200 blaðsíður eru óheimilir,“ segir Helga. 

Þá verður jafnframt að upplýsa einstaklinginn um samvinnu við önnur fyrirtæki. „Það eru dæmi um það að fyrirtæki sem rekur eitt smáforrit, eitt app, er í samstarfi við 200 önnur fyrirtæki. Þar opnast fólki langur listi sem það hafði ekki hugmynd um að var að fá upplýsingar um mig og þig og okkur öll,“ segir Helga.

Þá getur fólk frá og með sunnudegi beðið um að fá aðgang að öllum persónuupplýsingum frá fyrirtækjum, eins og til dæmis símafyrirtækjum. 

„Þetta er krafa sem fyrirtæki þurfa að standa fyrir og svara á frekar skömmum tíma. Og ég veit að mörg fyrirtæki hræðast umfangið,“ segir Helga.

Í vissum tilfellum getur fólk farið fram á upplýsingum verði eytt. Persónuvernd býst við því að margir krefji fyrirtæki og stofnanir um upplýsingar. „Hjá Persónuvernd í Danmörku hafa þegar um 1000 mál ný borist frá 25. maí 2018 þegar gildistakan var hjá þeim,“ segir Helga.

Bæði almenningur og hagsmunasamtök víða í Evrópu herji nú á Facebook og Google til að láta reyna á það hvort samþykkið sem þessir miðlar krefji notendur um sé skýrt og óþvingað. Þeir Íslendingar sem vilja leita réttar síns gagnvart alþjóðlegum stórfyrirtækjum geta leitað til Persónuverndar hér á landi. Helga segir að fyrirtæki og stofnanir hér á landi séu misjafnlega vel undir lagabreytinguna búin. 

„Margir eru komnir á góðan rekspöl með þetta og vonandi eru fleiri að fylgja þar fast á eftir,“ segir Helga.

Þá eru stofnanir og mörg fyrirtæki að ráða til sín persónuverndarfulltrúa sem er sérfræðingur í persónuvernd. Það er mikið í húfi fyrir þá sem vinna með persónuupplýsingar að fara að nýju lögunum því heimilt er að sekta þá sem brjóta lögin um allt að fjóra milljarða króna.