Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Óttast að fyrirtæki flýi land

23.09.2010 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir margar breytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu skemma fyrir fyrirtækjum í stað þess að auka tekjur ríkissjóðs. Hann óttast að fyrirtæki muni í auknum mæli flýja land. Fjármálaráðherra segir klisjuna um lága skatta og meiri lífsgæði ekki hafa reynst vel. Ný skýrsla Samtakanna valdi sér vonbrigðum.

Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð kynntu í morgun tillögur sínar til umbóta á skattkerfi atvinnulífsins á fjölmennum fundi. Tillögurnar eiga að miða að því að efla fjárfestingar, stuðla að sköpun nýrra starfa og bæta lífskjör landsmanna. Það er mat samtakanna að of geyst hafi verið ráðist í skattahækkanir um síðustu áramót.

Vilhjálmur Egilsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Hann segir sína skjólstæðinga sérstaklega óánægða með breytingar á tekju- og eignarskattslögunum. „Það eru alls konar svona vitleysur sem hafa engan tekjuöflunartilgang fyrir ríkið en skemma fyrir,“ segir hann.

Hagkvæmast sé að hafa breiða skattstofna með lágum prósentum. Þá auki einfaldleiki skattkerfis hagkvæmni, dragi úr skattsvikum og lækki kostnað. Hann óttast að eigendur smárra og meðalstórra fyrirtækja muni flytja lögheimili sín til útlanda þar sem skattkerfið er þeim hagstæðara.

„Við höfum sýnt fulla ábyrgð í því að það þurfi að afla ríkissjóði tekna en við viljum ekki að það sé gert með skemmdarverkum og fúski þannig að það komi ekkert út úr þessu,“ segir Vilhjálmur.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir sjálfsagt að skoða tillögur SA og Viðskiptaráðs en þær hafi þó flestar valdið sér vonbrigðum. Hann segir það klisju að hátt skattaöflunarstig og umfangsmikil samneysla hafi lamandi áhrif. „Ef svo væri þá væru Norðurlöndin ekki í fremstu röð bæði hvað varðar lífskjör og samkeppnishæfni. Þannig að það eru ýmsar klisjur uppi í þessum skattamálum sem standast ekki þegar betur er að gáð.

Tengdar fréttir: