Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óttarr kennir Ingileif að æla upp rokkinu

Mynd: RÚV / RÚV
Nýr þáttur af Hvað í fjandanum á ég að kjósa? er kominn inn á vefinn. Ingileif Friðriksdóttir er þar með hálfnuð með að hitta fulltrúa stjórnmálaflokkanna fyrir komandi alþingiskosningar.

Viðmælandi þáttarins er Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar. Óttarr býður sig fram í Reykjavíkurkjördæmi norður. 
Þau Ingileif hittast í æfingarhúsnæði rokksveitarinnar HAM og ræða geðheilbrigðismálin, húsnæðismálin og margt fleira. 

Þá kennir Óttarr Ingileif að nota iðrin til að öskra eins og rokksöngvari, með misjöfnum árangri. 

Fylgi Bjartrar framtíðar hefur mælst dræmt undanfarnar vikur en Óttarr Proppé segir að þrátt fyrir það sjái hann ekki eftir því að Björt framtíð hafi slitið ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn fyrir nokkrum vikum síðan. Eftir því sem frá líður þyki honum tilefni stjórnarslitanna ærið. 

Hvað í fjandanum á ég að kjósa? er vefþáttur ætlaður ungu fólki og verður sýndur á vef RÚV fram að alþingiskosningum. Markmið þáttanna er að kenna góða aðferð til að komast að niðurstöðu um það hvernig verja eigi atkvæði sínu í kosningunum. Ingileif Friðriksdóttir þáttastjórnandi fer sjálf af stað í þá vegferð að finna út hvað hún ætlar að kjósa og gefur upp afstöðu sína í lok ferlisins.