Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ótrúlegur sigur Skallagríms í Höllinni

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ótrúlegur sigur Skallagríms í Höllinni

08.02.2017 - 19:40
Það var ótrúleg spenna í leik Snæfells og Skallagríms í síðari undanúrslitaviðureigninni í bikarkeppni kvenna í körfubolta í kvöld.

Liðin skiptust á stigum í upphafi leiks og að fyrsta leikhluta loknum munaði einu stigi, 15-16, Snæfelli í vil. Snæfellingar léku betur í öðrum leikhluta og voru með verðskuldaða forystu í hálfleik, 30-38.

Borgnesingar vöknuðu heldur betur til lífsins í síðari hálfleik og löguðu þær stöðuna til muna og eftir þriðja leikhluta munaði einu stigi á liðunum, 50-69, Skallagrími í vil. Það var svo allt í járnum framan af fjórða leikhluta en þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir á klukkunni var Snæfell komið með fimm stiga forskot. Þá tóku Borgnesingar leikhlé, sem borgaði sig, því þær gulklæddu tóku forystuna á nýjan leik. Þegar 20 sekúndur voru eftir af leiknum voru Borgnesingar með 1 stigs forskot. Snæfellingar fengu þá tvö vítaskot og skoraði Andrea Björt Ólafsdóttir úr þeim báðum og Snæfellingar nú komnir með 1 stigs forskot.

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir reyndist svo hetja Borgnesinga þegar hún setti niður þriggja stiga körfu á ögurstundu og tryggði Skallagrími þar með farseðilinn í úrslitaleikinn. Það er óhætt að segja að Sigrún Sjöfn sé með stáltaugar en þetta var eina þriggja stiga karfan í leiknum og kom hún þegar 4,6 sekúndur voru eftir á klukkunni. Þetta er í fyrsta sinn sem Skallagrímur kemst í úrslitaleik bikarkeppninnar.

Það verða því Keflavík og Skallagrímur sem mætast í úrslitum í Laugardalshöllinni á laugardaginn.