Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ótrúlegt að ritstjórarnir séu verktakar

27.07.2015 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Allir sjö ritstjórar blaðanna, sem Fótspor gaf út, voru verktakar. Samningum þeirra var rift með viku fyrirvara á laugardag. Formaður Blaðamannafélagsins segir ótrúlegt að ritstjórarnir hafi ekki verið launamenn, störfin séu þess eðlis.

Ámundi Ámundason, útgefandi Fótspors, sendi sjö ritstjórum tíu fjölmiðla sem félagið gaf út, tölvupóst á laugardag um að verktakasamningum þeirra hefði verið sagt upp, vegna endurskoðunar á útgáfu félagsins. Uppsögnin taki gildi 1. ágúst - viku síðar. Þetta eru meðal annars Akureyri og Reykjavík vikublöð, auk bæjarblaða í Hafnarfirði, Kópavogi og á Selfossi, einnig landshlutablöð fyrir Vesturland, Vestfirði, Austfirði og Reykjanes. 

Allir ritstjórar blaðanna voru verktakar. Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins, furðar sig á því. „Mér finnst það fráleitt, sé það tilfellið, að um ótímabundna verktakasamninga sé að ræða og nánast trúi því ekki,“ segir Hjálmar. „Þessi störf eru þess eðlils að það er auðvitað eðlilegt að þessir menn séu launamenn og njóti réttinda sem slíkir.“

Í sumum tilfellum, í það minnsta, voru ráðningarsamningar við ritstjórana aðeins munnlegir. Í öðrum tilvikum höfðu skriflegir tímabundnir samningar ekki verið endurnýjaðir. Hjálmar bendir á að hjá sumum blaðanna hafi verið stunduð ágeng blaðamennska. „Þannig að það hefur ekki haft áhrif á þá að vera verktakar.  En auðvitað er það meira óöryggi en ef menn eru launamenn. Það gefur augaleið.“

Vefpressan, sem Björn Ingi Hrafnsson fer fyrir, hefur yfirtekið útgáfuréttinn að blöðunum og sagði við féttastofu í gær að útgáfunni yrði haldið áfram en starfsmannamálin yrðu skoðuð á næstu vikum. Ótímabært væri að tjá sig frekar fyrr en Samkeppniseftirlitið og Fjölmiðlanefnd hafi skoðað málið.