Ótrúlega erfitt fyrir sálina

Mynd: Lof mér að falla / Lof mér að falla

Ótrúlega erfitt fyrir sálina

06.09.2018 - 11:21
Kvikmyndin Lof mér að falla verður frumsýnd á morgun, föstudag. Myndin segir frá því hvernig Magnea, 15 ára, kynnist Stellu, eldri stelpu sem að tilheyrir spennandi heimi. Stella leiðir Magneu inn í heim fíkniefna sem hefur alvarlegar afleiðingar fyrir þær báðar.

Elín Sif Halldórsdóttir og Eyrún Björk Jakobsdóttir leika Magneu og Stellu en þær segja ferlið að vonum hafa verið mjög erfitt. Sérstaklega voru fyrstu tökudagarnir erfiðir en Elín segist hafa grátið mikið fyrstu vikuna. „Það kom mér á óvart hvað þetta var ótrúlega erfitt á sálina á tímapunktum,“ bætir Eyrún við.

Undirbúningurinn fyrir myndina var auðvitað mikill líka en auk þess að vera á reglulegum fundum með leikstjóranum, Baldvini Z, og í samlestrum þá lásu stelpurnar dagbækur, horfðu á myndir og þætti og hittu alls konar fólk.

Meðfram þessu var Elín að klára síðustu önnina sína í MH en í myndinni skartar hún mikið af mismunandi hárgreiðslum og litum. „Ég held sko að fólk hafi haldið að ég hafi verið að ganga í gegnum eitthvað erfitt tímabil.“

Elín og Eyrún voru gestir í Núllinu og hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan. 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Vona að myndin opni augu fólks