Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Óþarfi að íþyngja litlum skóm með stórum gjöfum“

14.12.2019 - 07:05
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Rakel Garðarsdóttir, stofnandi Vakandi, hvetur fólk til að gefa „upplifanir“ í stað hluta, eitthvað sem fólk getur notið, neytt eða nýtt. „Ekki kaupa hluti sem eru óþarfir, fyrir peninga sem þú átt ekki, til að ganga í augun á fólki sem þú þekkir ekki,“ segir formaður Neytendasamtakanna. Börn þurfa ekki svo mikið frá jólasveinum í raun og óþarfi að íþyngja litlum skóm með stórum gjöfum, segir verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir samtökin leggja áherslu á að fólk kaupi ekki óþarfa og falli ekki í þá gildru margra lánafyrirtækja, sem nú auglýsi grimmt, að taka lán til að kaupa hluti og gjafir fyrir jólin. Bestu gjafirnar fáist ekki fyrir fé. Betra sé að reyna að verja tímanum með fjölskyldu og vinum en að hlaupa á milli búða í stressi, „því það er náttúrulega langbesta gjöfin.“

Foreldrar þurfi að nota hyggjuvitið

Foreldrar þurfa að standa með sjálfum sér og ekki endilega hlaupa á eftir því sem þau halda að aðrir séu að gera eða því sem auglýsingar segja, segir Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum. Við jólagjafainnkaup og jólahald er mikilvægt að foreldrar noti eigið hyggjuvit og meti hvað þau telji rétt fyrir sig og sitt barn, segir hún í samtali við fréttastofu. 

Mynd með færslu
 Mynd:

Það sé mjög fallegt að sjá að foreldrar vilji gera vel við börnin sín. Hins vegar sé það ekki endilega alltaf barninu fyrir bestu að kaupa sem mest. „Óhófleg neysla og sóun er ekki það besta fyrir framtíð barnanna í ljósi loftslagsbreytinga,“ segir hún.

Börn eigi rétt á samvistum við foreldra sína og leiðsögn og stuðningi, ekki eigi að fá allt sem hugurinn girnist. Þá sé einnig hægt að gefa upplifanir fyrir alla fjölskylduna. Því þótt einhverjir hlutir valdi mögulega mikilli gleði í stuttan tíma sé það ekki endilega það sem barnið þurfi til lengri tíma.

Börnin í samfélagi annarra barna

Hvað jólasveina varðar, bendir Margrét Júlía á í pistli að þeir hafi ekki endilega kynnt sér Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, því stundum mismuni þeir börnum. Meðan sum börn fái mandarínu í skóinn sinn, eða jafnvel ekkert, fái önnur rándýr leikföng eða tæki. Kannski megi fyrirgefa þeim þetta, þar sem þeir séu orðnir gamlir og farnir að kalka. Það þarf samt að minna þá á þetta, segir hún í samtali við fréttastofu. 

Þá þurfi börn ekki svo mikið frá jólasveinum í raun og óþarfi sé að íþyngja litlum skóm með stórum gjöfum, þótt allir jólasveinar vilji gera sitt besta. Börnin tali saman og beri saman gjafir. Þetta sé í raun góðlátleg ábending til jólasveinanna, sem oft haldi að það þurfi að gera meira en þarf.

Mynd með færslu
 Mynd: Republic - RÚV

„Munið líka að börnin okkar eru í samfélagi annarra barna. Þarna úti eru börn sem fá litlar, eða jafnvel engar jólagjafir. Þetta eru líklega sömu börnin og fengu lítið sem ekkert frá jólasveinunum. Þið megið líka hugsa til þessara barna og gauka einhverju að þeim,“ segir í pistlinum. 

Best að gefa eitthvað sem fólk getur notið, neytt eða nýtt

Rakel Garðarsdóttir, stofnandi Vakandi, hvetur þá fólk til að gefa upplifanir í staðinn fyrir hluti, eitthvað sem fólk getur notið, neytt eða nýtt. Upplifanirnar þurfi þá ekki að kosta neitt, hægt sé að nýta krafta sína og deila hæfileikum sínum með fjölskyldu og vinum og til dæmis bjóða vinahópnum í skemmtilegt matarboð, bjóða vandamönnum í göngu um söguslóðir sem maður sjálfur þekkir vel, eða bjóða upp á næturpössun og svo framvegis. 

Það sama eigi við um jólasveina, það sé leiðinlegt ef þeir búi til einhverja og alls konar hluti á verkstæðinu sínu sem engan svo vanti. Frekar sé gaman að fá eitthvað sem hægt sé að neyta eða nýta. 

Annars sé upplagt að gefa fólki eitthvað sem það vantar. Hins vegar hafi tímarnir breyst. Margir eigi allt sem þeir þurfa eða kaupi sér allt sem þeir vilja. Því megi einnig einfaldlega fækka gjöfum, draga úr stressi og frekar njóta þess að vera saman á þessum fáu hátíðisdögum. 

Aldrei meiri sóun en í kringum hátíðirnar

Það er aldrei meiri sóun á heimilum en í kringum hátíðirnar, segir Rakel. Því megi hafa matarsóun í huga, fara varlega í innkaupin og passa að kaupa bara það sem maður ætlar sér að nota. Þá sé til dæmis gott að reyna að kaupa úr nærumhverfinu, til dæmis íslenskar vörur, bara minna af þeim. 

Hvað jólaundirbúninginn varðar sé mikilvægt að reyna að sleppa því sem er einnota. Til dæmis sé endalaust af pappír til sem hægt sé að nýta, svo sem jólapappírnum sem maður fær sjálfur í gjafir. Hægt sé að skreyta hann með öðrum hlutum úr nærumhverfinu, sé hann aðeins sjúskaður eftir síðustu jól, svo sem með borðum sem maður hefur sankað að sér, útklipptum myndum eða könglum úr garðinum.