Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Óþarfi að hafa áhyggjur af veikingu krónunnar

23.10.2018 - 08:46
Mynd: ruv / ruv
Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum segir óþarfa að hafa áhyggjur af veikingu krónunnar. Hann segir að krónan sé mjög sterk í sögulegu samhengi. Hún yrði áfram þokkalega sterk þó að hún myndi veikjast um tíu til fimmtán prósent.

„Það er auðvitað hættulegt að hafa of sterkan gjaldmiðil, svona til lengri tíma. Það myndi þýða að störf myndu flytjast úr landi. Þó það sé gaman að fara til útlanda eins og ég er að gera núna og þurfa að greiða lítið fyrir að fara út að borða þá til lengra tíma litið er kannski betra að hafa aðeins meira jafnvægi,“ sagði Már á Morgunvaktinni á Rás 1. Hann sagði veikingu undanfarinna vikna alls ekki vera óeðlilega.

Már benti á að dollarinn kostar jafn margar krónur nú og í ágúst fyrir tveimur árum. Á sama tíma hefði launavísitalan hérlendis hækkað um sautján prósent. Þannig sé krónan sterkari en þá miðað við kaupmátt og miklu sterkari en fyrir nokkrum árum.

Afleiðing þess að krónan veikist er að vöruverð hækkar og sama gildir um verðtryggð lán. „Nú þegar hugsanleg efnahagsniðursveifla er að eiga sér stað þá munu skuldir fólk aukast á versta tíma,“ sagði Már. Á móti kæmi að veiking krónunnar hefði jákvæð áhrif á útflutning.