Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Óþægilegt erindi við samtímann

Mynd: Netflix.com / youtube.com

Óþægilegt erindi við samtímann

14.02.2017 - 15:55

Höfundar

„Það þarf að teygja sig ansi langt til að keppa við raunveruleikann árið 2017. Þættirnir Designated Survivor eru gott dæmi um efni sem öðlast hefur nýtt samhengi á allra síðustu vikum,“ segir sjónvarpsrýnir Lestarinnar Nína Richter um þættina Designated Survivor. Hún segir jafnframt að embættistaka Trump marki kaflaskil í því leikna efni sem á að gerast á forsetaskrifstofu Hvíta hússins í Bandaríkjunum.

Hinn útnefndi

Þegar bandaríska stjórnin kemur saman með öllum embættismönnum ríkisvaldsins, til dæmis við þingsetningu eða innsetningu nýs forseta, hefur ákveðinni öryggisráðstöfun verið beitt. Snýst hún um að útnefna einn fulltrúa þingsins til að vera formlegur fulltrúi á öruggum stað, víðs fjarri samkomunni, eins konar öryggisventil ef koma skyldi til hamfara. Hefur þetta fyrirkomulag tíðkast í raun og veru, alveg síðan á dögum kalda stríðsins.

Óheppileg tímasetning

Það má teljast ótrúlegt að kvikmyndaiðnaðurinn hafi ekki gengið á lagið fyrr en nú, og skáldað hetjusögur í kringum þessar aðstæður, fyrir áhorfendur hvíta tjaldsins að njóta. Í þáttunum Designated Survivor fá áhorfendur að sjá tækifærin nýtt til hlítar, stjórnin er þurrkuð út og skyndilega er maður sem enginn man hvað heitir, og enginn kaus, orðinn bandaríkjaforseti.

Þættirnir hófu göngu sína 21. September 2016, sem vill til að er alþjóðlegur dagur friðar. Þeir hlutu blendnar viðtökur frá upphafi. Fyrir því eru örugglega nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi var kosningabaráttan í Bandaríkjunum í hámæli um þetta leyti, kosið var í embættið 8. nóvember og margir orðnir þreyttir á umræðunni, fátt annað í boði í amerísku sjónvarpi og kannski vildi fólk tilbreytingu og frí frá umræðunni um málefni forsetaembættisins.

Óþægileg samsvörun

Hlutverk forsetans Tom Kirkman er í höndum hins kanadíska Kiefer Sutherland sem er þekktastur fyrir leik sinn í spennuþáttunum 24. Leikarinn Kal Penn fer með annað aðalhlutverk og er sérstaklega eftirminnilegur í hlutverki almannatengils Hvíta hússins. Hann hefur komið víða við þrátt fyrir stuttan feril, hann lék ásamt Kiefer Sutherland í þáttunum 24 árið 2007, lék síðar í House MD þáttunum ásamt breska leikaranum Hugh Laurie og átti einnig stórleik í gamanþáttunum How I Met Your Mother.

Hér sjáum við óttann reka fólk í ógöngur, stjórnin setur á flóttamannahömlur og innflytjendabönn sem ríma við það sem er að gerast í Bandaríkjunum í dag. Alda haturs gegn múslímum rís á meðan þjóðin leitar að sökudólgum. Þjóðfélagið er heltekið einskonar nornaveiðum og allir jaðarsettir hópar liggja undir grun. Við fylgjumst með af sama áhuga og rekur okkur í að horfa á fréttir, við viljum sjá hvernig þetta spilast út í hliðstæðum veruleika sem gæti tæknilega séð einn daginn orðið okkar, þó að við vonum auðvitað innilega að svo verði aldrei.

Þættirnir Designated Survivor eru aðgengilegir á Netflix.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Töfrarnir felast í óvissunni

Sjónvarp

Ástir og ádeila í sjónvarpssöngleik

Sjónvarp

Framtíðarspennutryllir í skemmtigarði

Sjónvarp

Gróska í svikmyndaforminu