Ósýnilega vatnið sem við drekkum

Mynd með færslu
 Mynd:

Ósýnilega vatnið sem við drekkum

08.01.2015 - 15:26
Heimssamtök efnaverkfræðinga hafa birt nýja útreikninga á vatnsneyslu jarðarbúa þar sem tekið er með í reikninginn allt það vatn sem fer í framleiðslu á matvælum og drykkjarvörum. Samkvæmt þeim neytir hver einstaklingur óbeint allt að 1.8 milljón lítra árlega. Bein vatnsneysla skiptir þar litlu máli

Stefán Gíslason fjallar um ósýnilega vatnið í pistli sínum í dag.

Ósýnilegt vatn

 Vissulega er það nauðsynlegt heilsunni að drekka nóg af vatni á hverjum degi árið um kring. Í ráðleggingum Landlæknisembættisins um mataræði og næringarefni er til dæmis áætlað að meðalmaðurinn þurfi að fá einn til einn og hálfan lítra af vökva úr drykkjum á degi hverjum, þó að vökvaþörfin sé vissulega breytileg eftir því hver viðfangsefni dagsins eru. Á heilu ári þyrftu þetta þá að vera um það bil 365-550 lítrar, sem er svo sem alveg slatti. Það væri hins vegar að bera í bakkafullan lækinn að drekka heila sundlaug af vatni á einu ári einn og óstuddur.

 Í ólympískri sundlaug af fullri stærð rúmast allt að tveimur og hálfri milljón lítra af vatni, miðað við að laugin sé 50 metra löng, 25 metra breið og tveggja metra djúp. Drekki maður allt vatnið úr lauginni samsvarar það því á að giska 5.000-földum ráðlögðum dagskammti alla daga ársins. Auðvitað dettur engum í hug að einn maður geti torgað svo miklu vatni, jafnvel þótt það væri alveg hreint og laust við klór. En þegar grannt er skoðað kemur samt í ljós að hvert okkar um sig fer langt með að drekka allt þetta vatn á einu ári. Stærstur hluti þess er bara ósýnilegur.

 Á nýársdag birtu Heimssamtök efnaverkfræðinga, eða Institution of Chemical Engineers (IChemE), frétt á heimasíðu sinni þar sem sagt er frá nýjum útreikningum á vatnsneyslu jarðarbúa, en þar er búið að reikna inn í dæmið allt það vatn sem notað er við framleiðslu á matvælum og drykkjarvöru. Þar kemur fram að samtökin áætli að hver einstaklingur neyti óbeint allt að 1,8 milljónar lítra af vatni árlega eða um 2.000-5.000 lítra á dag. Bein vatnsneysla skiptir nánast engu máli í þessu samhengi, þannig að þarna er bara verið að tala um „ósýnilegt vatn“. Ólympíska sundlaugin gerir sem sagt ekki mikið meira en að duga mér einum út þetta ár.

 Eins og staðan er í dag notar almenningur aðeins um 10% af því ferskvatni sem notað er í heiminum. Um 20% eru notuð í iðnaðarframleiðslu og hvorki meira né minna en 70% í matvælaframleiðslu, að því er fram kemur í samantekt IChemE. Þessi mikla vatnsnotkun er farin að valda mönnum miklum áhyggjum og ekki batnar staðan þegar rýnt er í framtíðina. Menn telja nefnilega horfur á að vatnsnotkun muni aukast um meira en 50% fram til ársins 2050 vegna fólksfjölgunar og aukinnar áherslu á vestrænt neyslumynstur, þ.e.a.s. ef ekkert verður að gert. Það myndi þýða að árið 2050 muni um tveir þriðju hlutar jarðarbúa, þ.e.a.s. 67%, hafast við á svæðum þar sem skortur er á vatni, samanborið við aðeins 7% í dag, ef hægt er að nota orðið „aðeins“ um vandamál sem snertir hálfan milljarð manna nú þegar. Það er því næsta auðvelt að vera sammála því mati IChemE að brýnt sé orðið að draga úr „ósýnilegri vatnsneyslu“ við matvælaframleiðslu. Til að byrja með hafa samtökin lagt til að stefnt verði að 20% samdrætti til ársins 2050 til að auka fæðuöryggi og minnka álag á vatnslindir heimsins, því að þetta snýst náttúrulega ekki bara um að hafa nóg vatn til að drekka, heldur líka um að geta haldið áfram að framleiða matvæli. Ef haldið verður áfram á sömu braut mun það leiða til fæðuskorts, hækkandi matvælaverðs, þurrka og alvarlegra félagslegra vandamála. En eins og IChemE bendir líka á eru til lausnir á þessum vanda. Þær eiga það hins vegar sameiginlegt að útheimta pólitískan vilja, verulegar fjárfestingar og breytingar á lífsstíl. Skerpa þurfi á reglugerðum og skapa fjárhagslega hvata til að fá iðnaðinn til að fylgjast með raunverulegri vatnsnotkun sinni og umbuna þeim sem velja nýjar og sjálfbærari leiðir í öflun og notkun vatns. Samhliða þessu þurfi að fræða fólk um það hvernig maturinn þess sé framleiddur, þannig að það geti tekið upplýstar ákvarðanir um matarinnkaup. Ekkert af þessu verði ódýrt eða auðvelt, en þarna gildi það sama og um aðgerðir í loftslagsmálum. Aðgerðirnar séu einfaldlega nauðsynlegar til að tryggja okkur sómasamlegt líf.

 Nú er von að spurt sé hvað venjulegt fólk geti gert til þess að draga úr neyslu á ósýnilegu vatni. Eins og staðan er í dag er þessu fólki nokkur vandi á höndum því að innihaldslýsingar eru fáorðar um það hversu mikið vatn hafi verið notað við framleiðslu og dreifingu viðkomandi vöru. Almennt má þó gera ráð fyrir því að lítið unnin matvara innihaldi minna af ósýnilegu vatni en mikið unnin matvara, og sömuleiðis má ætla að matvörur sem framleiddar er í smáum stíl í nágrenninu séu heldur betri kostur en vörur sem framleiddar eru í fjarlægum verksmiðjum. Alla vega er óhætt að fullyrða að grænmetisfæði innihaldi alla jafna miklu minna af ósýnilegu vatni en kjötmeti.

 Til eru ýmsir útreikningar á því hversu mikið vatn þurfi til framleiðslu á einu kílói af mismunandi matvörum. Árið 2009 reiknaði rannsóknarstofnunin Pacific Institute til dæmis vatnsþörfina fyrir nokkrar tegundir. Samkvæmt þeim útreikningum þarf að meðaltali um 1.000 lítra af vatni til að framleiða 1 kg af kartöflum, um 1.500 lítra fyrir 1 kg af hveiti og svipað magn fyrir hvert kíló af maís og soja. Hins vegar þarf að meðaltali um 3.500 lítra fyrir hvert kíló af hrísgrjónum. Egg eru á svipuðu róli en meðaltalið fyrir kíló af kjúklingi er nálægt 4.500 lítrum. Nautakjötið slær öll met í þessum efnum, en samkvæmt tölum frá Pacific Institute þarf þar á bilinu 15.000 og upp í 70.000 lítra til að framleiða eitt kíló af því.

 Samtökin Water Footprint Network hafa unnið mikið starf við að upplýsa fólk, stofnanir og stjórnvöld um notkun á ósýnilegu vatni við framleiðslu á vörum, þ.e.a.s. um það sem kallast á ensku Water Footprint og gæti útlagst sem vatnsspor á íslensku. Á heimasíðu samtakanna, waterfootprint.org, er að finna aðgengilegan fróðleik um þessi mál. Þar geta áhugamenn um bjórdrykkju og rauðvínsneyslu t.d. séð að í hverjum lítra af bjór leynast 296 lítrar af ósýnilegu vatni. Ef maður fær sér heilan lítra af rauðvíni í staðinn er vatnssporið hins vegar miklu stærra, eða 872 lítrar. Dæmið með bjórinn og rauðvínið minnir reyndar á hversu margar spurningar vakna við svona útreikninga. Hvort er t.d. réttara að bera saman vatnsnotkun á hvert kíló af viðkomandi vöru, á hverja hitaeiningu eða á hvern millilítra af alkóhóli? Dæmið er sem sagt hreint ekki einfalt, en eitt er þó víst: Við höfum verið að bruðla með vatn og því bruðli verður að linna.

 Svona í lokin er rétt að undirstrika að ég ætla alls ekki að leggja til að fólk fari að spara við sig vatnsdrykkjuna. Þvert á móti legg ég til að ráðleggingar Landlæknisembættisins verði eftir sem áður hafðar til hliðsjónar í þeim efnum, enda munar nánast ekkert um vatnsdrykkjuna í þessu dæmi. Hér erum við bara að tala um vatnsspor matvæla, þ.e.a.s. vatnið sem við eyðum með neyslu okkar án þess að sjá það nokkurn tímann sjálf. Við þurfum að hugsa miklu meira en við gerum um það hvað við látum ofan í okkur.