Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óstjórn og trúnaðarbrestur í allar áttir

12.06.2018 - 12:05
Mynd með færslu
 Mynd: Ómar Ragnarsson - RÚV
Úttekt á starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs leiðir í ljós mikla óreiðu og óstjórn. Framkvæmdastjóri hefur verið settur af og stjórnarformaður garðsins sagði af sér í kjölfar úttektarinnar. Í skýrslu Capacent er talað um trúnaðarbrest í allar áttir innan stofnunarinnar, mikla framúrkeyrslu og samninga sem gerðir voru með óskýrri heimild.

Vatnajökulsþjóðgarður er ríkisstofnun sem var komið á fót árið 2007 og hefur með höndum umsýslu garðsins, náttúruvernd og fleira. Stofnunin fékk 671 milljón króna á fjárlögum í fyrra. Í upphafi árs fór nýr umhverfisráðherra fram á óháða úttekt á starfseminni þar sem afkoma garðsins og rekstur voru óviðunandi. Capacent skilaði úttektinni í gær og óhætt er að segja að hún sé svört.

50% framúrkeyrsla – stjórnarmenn fá litlar upplýsingar

Í skýrslu Capacent segir að stofnunin hafi farið fimmtíu prósent fram úr fjárheimildum í fyrra – þar muni mest um launakostnað sem hafi verið þriðjungi umfram rekstraráætlun.

Formlegt samþykki stjórnar á fjárhags- og rekstraráætlunum ársins í fyrra liggi ekki fyrir – stjórnin hafi ekki óskað nægilega markvisst eftir upplýsingum um reksturinn og þá sjaldan stjórnarmenn hafi gert það hafi þeir fengið litlar eða takmarkaðar upplýsingar.

„Ekkert traust“ milli framkvæmdastjóra og stjórnar

Í skýrslunni er lýst samskiptaleysi og trúnaðarbresti á milli framkvæmdastjóra garðsins og stjórnarinnar. Raunar segir að „ekkert traust“ hafi verið á milli framkvæmdastjóra, stjórnarformanns og nær allrar stjórnar, sem hafi lýst sér best í því að hvor aðili hafi ráðið sinn lögmanninn til að gæta hagsmuna sinna, sem Capacent segir fáheyrt og ekki verði séð að sú ráðstöfun hafi verið samþykkt af stjórninni.

Trúnaðarbresturinn hafi leitt til þess að garðurinn hafi skuldbundið sig fram úr hófi. Enn fremur virðist sem framkvæmdastjórinn hafi misst trú og traust starfsmanna.

Sparnaðaraðgerðir höfðu þveröfug áhrif

Svo virðist sem reynt hafi verið að spara í skrifstofuhaldi á miðlægri skrifstofu með því að deila verkefnum hennar á svæðisstöðvar. Þetta hafi hafi hins vegar haft þveröfug áhrif, bitnað á rekstrinum, miðlæga skrifstofan ekki náð að sinna nauðsynlegri stefnumótun og rekstri og landverðir á móti þurft að sinna verkefnum sem þeir hafi ekki sérþekkingu á, til dæmis að frágangi launamála.

Þá er bent á að Ríkisendurskoðun hafi árið 2013 lagt til að fjármálastjóri yrði ráðinn til stofnunarinnar. Fjárheimild hafi verið til staðar fyrir þeirri ráðningu frá árinu 2011 en hann ekki ráðinn fyrr en árið 2016, fimm árum síðar.

Óskýrar heimildir fyrir samningum

Í úttektinni er sérstaklega fjallað um leigusamning um jörðina Þverá sem framkvæmdastjóri garðsins undirritaði í maí 2017 og gilti afturvirkt til haustsins 2016. Capacent segir að stjórn hafi ekki haft allar upplýsingar þegar fjallað var um leigusamninginn, heimild framkvæmdastjóra til að undirrita hann hafi verið óskýr, formlegt samþykki stjórnar á endanlegum samningi hafi ekki legið fyrir, ekki hafi verið gerðar ráðstafanir til að fjármagna hann og afstaða ráðuneytisins til samningsgerðarinnar hafi ekki legið fyrir. Leiguverðið var rúmar 17 milljónir í fyrra.

Þá er einnig fjallað um verktakasamning sem framkvæmdastjórinn gerði við veitingamann án samþykktar stjórnar eða svæðisráðs garðsins.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Einn settur af og annar segir af sér

Til stóð að framkvæmdastjórinn Þórður H. Ólafsson léti af störfum á árinu fyrir aldurs sakir. Í gær tilkynnti ráðuneytið að Þórður hefði verið settur af og og ráðherra hefði sett Magnús Guðmundsson, forstjóra Landmælinga, tímabundið í starfið í hans stað. Þá hefur Ármann Höskuldsson sagt af sér sem stjórnarformaður.

Guðmundur Ingi segir að Þórður og Ármann séu sáttir við málalokin. „Já, þetta var samkomulag milli mín og framkvæmdastjórans um að hann mundi hætta núna – hann verður sjötugur í haust og átti að fara á eftirlaun. Stjórnarformaðurinn óskaði eftir að geta farið að sinna sínu aðalstarfi, en stjórnarformennskan er náttúrulega hlutastarf. Það var bara niðurstaða sem við komumst að.“

Kallar eftir þarfagreiningu á fé til náttúruverndar

„Niðurstaða úttektarinnar er mjög skýr. Þarna er um veruleg frávik frá fjárheimildum að ræða, sem er alvarlegt mál. “ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. „Það eru erfiðleikar í samskiptum og ekki nægilega vel haldið utan um mál þarna og ég hef þegar tekið á stjórnunarþættinum hvað þetta varðar,“ segir hann.

„Síðan er verkefnið núna að halda áfram og koma rekstrinum á réttan kjöl,“ segir hann. Hann trúi því og treysti að nýju fólki takist það. „Hvað það mun taka langan tíma mun koma í ljós. En ég tel líka mjög mikilvægt, og vil taka það sérstaklega fram, að ég hef í hyggju að kalla eftir þarfagreiningu á fjármagni til náttúruverndar í ljósi stóraukins álags ferðamanna og hvernig megi mæta því almennt.“