Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Össur verðmætasta fyrirtækið

18.04.2014 - 19:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Markaðsvirði fyrirtækja í Kauphöllinni er um fimm hundruð milljarðar króna. Velta hlutabréfamarkaðarins þrefaldaðist í fyrra. .

Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði tímaritsins Frjálsrar verslunar. Verðmætasta fyrirtækið í Kauphöll Íslands samkvæmt úttekt blaðsins er Össur hf., metið á 117 milljarða króna.

Icelandair Group er næst verðmætasta fyrirtækið, metið á 93 milljarða króna og Marel er þriðja verðmætasta fyrirtæki landsins,  metið á 84 milljarða króna. Miðað við þetta er markaðsvirði 11 stærstu fyrirtækja landsins nærri þriðjungur landsframleiðslu.

Þá hefur velta hlutabréfamarkaðarins stóraukist síðustu misseri. Árið 2012 var velta hlutabréfa alls 88 milljarðar króna í nærri átta þúsund viðskiptum. Veltan í fyrra var nærri þrefalt meiri, um 251 milljarður króna, samkvæmt úttekt blaðsins.