Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Óslóartréð fær inni í Ráðhúsinu

01.12.2014 - 20:16
Mynd með færslu
 Mynd:
Borgarstjórinn í Reykjavík og sendiherra Noregs á Íslandi felldu í dag jólatré við Rauðavatn, í stað Óslóartrésins á Austurvelli. Óslóartréð brotnaði í veðurofsanum í gær. Það fær nú inni í Ráðhúsi Reykjavíkur í staðinn.

Í meira en sextíu ár hafa barrtré frá Noregi gegnt hlutverki jólatrés á Austurvelli. Trén hafa verið gjöf frá Ósló sem er vinaborg Reykjavíkur. Kveikt var á ljósunum á trénu í gær, fyrsta í aðventu en í óveðrinu í nótt eyðilagðist það. Því brugðu borgarstjórinn í Reykjavík og sendiherra Noregs á það ráð í dag að finna nýtt. Það fannst við Rauðavatn. „Meginatriðið er það að slíta ekki þessi sterku bönd á milli borganna og þjóðanna og auðvitað hafa jólahefðirnar og hátíðleikann eins og hann hefur verið svo lengi á Austurvelli,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Í vor bárust þær fréttir að borgaryfirvöld í Ósló hygðust leggja siðinn af. Þau drógu ákvörðunina síðar til baka, og tréð var höggvið og sent til Íslands. Því er ekki úr vegi að spyrja borgarstjóra hvort það sé ekki kaldhæðnislegt að Óslóartréð skyldi fjúka um koll í gær. „Kannski, en mér finnst alla vega frábært að við getum gert gott úr þessu og sendiherrann er með okkur hér í dag.“

Óslóartréð fær nú nýjan samastað. „Við erum að hugsa að búa um það inni í Ráðhúsinu, hleypa því inn í lognið og hlýjuna þar. Þar erum við að opna ráðhúsið og ætlum að vera með jólaskóg frá og með fimmtudeginum, að börn og allir bara geta komið þangað og notið þess þar,“ segir Dagur.