Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Óskynsamlegt væri að hverfa frá rammaáætlun

04.05.2017 - 18:01
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Íslendingar ættu alls ekki að hverfa frá rammaáætlun enda eru mörg landssvæði ókönnuð og tækifærin í virkjanamálum mikil. Þetta segir Haakon Thaulow, upphafsmaður norsku rammaáætlunarinnar, en hann hélt erindi á Samorkuþingi á Akureyri í dag. 

Norðmenn ákváðu á síðasta ári að hverfa frá rammaáætlun um vernd og nýtingu virkjanakosta. Meginástæðan var sú að nær allir vatnsaflsvirkjanakostir höfðu verið kannaðir og því var talið óþarft að halda áfram með áætlunina. 

Haakon Thaulow, upphafsmaður norsku rammaáætlunarinnar og fyrrverandi verkefnastjóri hjá umhverfisráðuneyti Noregs, hélt erindi á Samorkuþinginu á Akureyri þar sem hann fjallaði um norsku leiðina í virkjanamálum sem er fyrirmynd þeirrar íslensku. 

Haakon segir aðstæður á Íslandi í meginatriðum svipaðar í dag og þær voru í Noregi á níunda áratugnum, þegar hafist var handa við nýtt verklag í virkjanamálum.  

Hann segir að Íslendingar ættu alls ekki að hverfa frá rammaáætlun. Þvert á móti séu margir kostir enn ókannaðir og því sé staðan gjörólík þeirri sem upp var komin í Noregi í fyrra þegar ákveðið var að hverfa frá áætluninni. Auk þess bendir Haakon á að norska áætlunin hafi verið í gildi í 35 ár, sem er talsvert lengri tími en í tilfelli þeirrar íslensku sem komst til framkvæmdar árið 1999.