Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Öskumistur víða

24.04.2010 - 18:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Mistur af völdum eldgossins var þó nokkuð yfir Suður- og Suðvesturlandi í dag. Mengun í höfuðborginni var ámóta og á umferðarþungum degi.

Gosmökkurinn náði ekki þriggja kílómetra hæð og var því mistrið mest næst jöklinum.

Harla óvenjulegt er að sjá mengunarský yfir Suðurlandi en enginn hafði þó leitað á Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi vegna óþæginda.  Ljósbrúna misturshulu mátti líka sjá víða við sjóndeildarhringinn á höfuðborgarsvæðinu.

Svifryk mældist yfir viðmiðunarmörkum í dag samkvæmt loftgæðamælingum Reykjavíkurborgar. Ekki er þörf á að bera grímu en fólki með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma er ráðlagt að halda sig innandyra.

Fíngerðs salla varð vart víða samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar þó aðallega á Suðurlandi og Reykjanesi.

Veðurstofan hvetur fólk að skrá á heimasíðu sinni vedur punktur is upplýsingar um öskufall en leiðina má sjá efst á forsíðunni.