
Útkoman er talin geta haft áhrif á hvernig flugumferð er stjórnað í eldgosum í framtíðinni.
Þetta kemur fram í grein eftir vísindamenn frá stærðfræði- og jarðfræðideildum Háskólans í Bristol á Englandi sem birt er í fræðiritinu Journal of Geophysical Research. Fræðimennirnir, undir forystu stærðfræðingsins Mark Woodhouse, hafa búið til nýtt líkan til að leggja mat á hversu mikil aska spýtist upp úr gjósandi eldfjalli.
Í umfjöllun um greinina segir að áður hafi helst verið lagt mat á öskufallið út frá hæð öskuskýsins. Í þetta sinn segja vísindamennirnir að vindátt meðan á gosinu stendur hafi umtalsverð áhrif á hversu hátt öskuský nái. Sé ekki tekið tillit til þess verði öskufallið mjög vanmetið. Við rannsóknina var stuðst við ítarlegar veðurupplýsingar og upplýsingar um hæð öskuskýsins.
Telja sérfræðingar Cabot stofnunarinnar við Háskólann í Bristol að allt að 100 sinnum meiri aska hafi spýst upp í gosinu í Eyjafjallajökli heldur en var talið meðan á því stóð. Vanmat geti valdið mikilli hættu þegar meta á hvort óhætt sé að fljúga meðan á gosi stendur. Telur Woodhouse að nýja líkanið gagnist til að meta betur ösku í andrúmsloftinu.