Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Öskufall næstu daga

23.05.2011 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Líklegt er talið að hraungos hefjist í Grímsvötnum eftir nokkra daga og þá taki mesta öskufallinu að linna. Ef eldvirknin færist til gætu komið risavaxin hlaup úr jöklinum.

Allt frá því að eldsumbrotin hófust í Grímsvötnum í fyrrakvöld hafa gosefnin hlaðist upp í botni öskjunnar. Snerting kvikunnar við vatnið sem þar er fyrir veldur miklum sprengingum og því stígur úr gígnum hnausþykkur og blýgrár gosmökkur myndaður úr gufu og ösku.

Helgi Björnsson jarðeðlisfræðingur telur að öskufallið haldi áfram næstu daga. „Meðan þetta gos helst inni í Grímsvötnum þar sem það er þá ætti ég von á því að það tæki kannski eina viku fyrir þetta eldgos að hlaða sig upp úr Grímsvötnum og upp fyrir vatn og þá hætta þessar sprengingar og við ættum að geta andað léttar.“

Þá tæki við hraungos sem þess vegna gæti staðið í nokkra mánuði en Helgi segir að áhrifin af því yrðu óveruleg. Hann segir ennfremur að meðan gosið er í sjálfri öskjunni í Grímsvötnum sé ekki ástæða til að hafa áhyggjur af hlaupi. Hins vegar er hugsanlegt að eldvirknin geti færst til.

„Ef það gerist, nú ef hún færist til dæmis norður fyrir Grímsvötn þá fer að bráðna ís sem er utan við vötnin og bætist í þau. Þá verður hlaup eins og 1996. Ef það fer suður fyrir hins vegar þá safnast það ekki neitt heldur kemur beint niður. Ef að fer yfir í Þórðarhyrnu kemur væntanlega niður í Djúpá eða beint niður í Skeiðará.“

Hlaupið 1996 úr Gjálp var gríðarstórt, tæpir fjörutíu þúsund rúmmetrar á sekúndu. Til samanburðar er meðalrennsli í Þjórsá þrjú hundruð rúmmetrar á sekúndu. Helgi telur samt ólíklegt að slík færsla muni eiga sér stað.