Athugið þessi frétt er meira en 13 ára gömul.

Öskufall í Rangárþingi

11.05.2010 - 07:16
Mynd með færslu
 Mynd:
Grófkorna aska féll á Drangshlíðar- og Skarðshlíðarbæjum í Rangárþingi Eystra í gær. Gosmökkurinn úr eldstöðinni náði mest fimm til sex kílómetra hæð, en síðdegis dró úr gosvirkni.

Klepragígur hleðst upp í ískatlinum, en hraunrennsli er í lágmarki. Veðurstofan gerir ráð fyrir vestlægri átt og þá má reikna með öskufalli austur af eldstöðinni, allt austur að Kúðafljóti.

Héraðsráðunautar Bændasamtakanna og búnaðarsambandanna heimsækja bæi á öskufallssvæðinu og í nágrenni þess í dag og á morgun til að meta með bændum aðstæður og þörf fyrir aðstoð vegna föðuröflunar og beitar í vor og sumar. Miðstöð ráðunauta verður að Höfðabrekku í Mýrdal, en þeir sækja síðan heim bændur í undir Eyjafjöllum, í Mýrdal, Meðallandi, Álftaveri, Skaftártungu, Fljótshlíð og víðar eftir atvikum.

Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvöllur eru opnir og samkvæmt upplýsingum flugfélaga og textavarps ætti innanlands- og millilandaflug að vera með eðlilegum hætti í dag. Óvíst er þó með flug til Vestmannaeyja.