„Óskuðu þess að hún myndi deyja“

21.11.2018 - 16:31
Mynd:  / 
Ung kona með lítið barn leitaði verndar hér vegna þess að hún var beitt ofbeldi. Hún var gift til Íslands og bjó í algerri einangrun. Hún var í mikilli hættu vegna þess að eiginmaður hennar og fjölskylda hans sátu um hana og óskuðu þess að hún myndi deyja. Þetta kom fram á ráðstefnu í dag.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Kvennaathvarfið efndu í dag til ráðstefnu þar sem kastljósinu var beint að viðbrögðum vegna nauðungarhjónabanda, heiðurtengds ofbeldis, umskurðs kvenna og annars ofbeldis innan fjölskyldna af erlendum uppruna. Þar tóku til máls þær Farrah Ghazanfar og Katarina Karantonis sem starfa í þverstofnanalegu teymi sem tekur á þessum málum í Noregi. Hópinn skipa fulltrúar lögreglu, útlendingastofnunar og fleiri stofnana. 

Boðið er upp á símaþjónustu eða hjálparlínu sem allir sem verða fyrir ofbeldi sem tengist nauðungarhjónabönum, umskurði og því sem kallað er neikvæð samfélagsleg stjórnun, geta nýtt sér. Hópurinn er líka með athvörf víða í Noregi sem eru í boði fyrir fólk sem þarf hjálp og skjól. Einnig er fólki sem hefur verið sent gegn þeirra vilja til útlanda hjálpað að komast aftur heim. 

Vill að stofnaður verði faghópur hér

560 einstaklingar leituð til faghópsins í fyrra. Tilfellum fjölgaði talsvert eftir að fljóttamannastraumurinn jókst. 25% málanna tengdust nauðungarhjónaböndum, 28% svokölluðu heiðursofbeldi og 14% þvingaðri dvöl í öðru landi, yfirleitt í upprunalegu heimalandi. 74% málanna tengdust stúlkum eða konum. Flest málanna tengdust Pakistan, Írak, Sómalíu, Afganistan og Sýrlandi. Katarina Karantonis segir mikilvægt að í hópnum séu fulltrúar margra stofnana.

„Vegna þess að þolendur þurfa hjálp og upplýsingar sem tengjast mörgum sviðum," segir Katarina
 Hún ráðlegur Íslendingum að koma upp svona hópi.

„Vegna þess að þó að málin séu fá í upphafi er mikilvægt að einhver öðlist reynslu sem hægt er að miðla áfram.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Katarina Karantonis

Ný tengund ofbeldis hér

En er þörf á þessu hér á landi? Edda Ólafsdóttir félagsráðgjafi á velferðarsviði bendir á að Ísland sé ungt innflytjendaland.

Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að fylgjast með hvað er að gerast út í hinum stóra heimi, sérstaklega á Norðurlöndunum. Því það sem gerist þar kemur hingað alltaf aðeins seinna. Nú er  samsetningin á erlendum íbúum af erlendum uppruna að breytast. Við erum að fá fleiri flóttamenn til okkar. Og okkur finnst þetta vera mikilvæg þekking fyrir fagfólk og ræða þessi mál. Þetta er ný tegund af ofbeldi ef það er hægt að orðað það þannig. Við þurfum að þekkja birtingarmyndirnar, geta lesið úr og brugðist við," segir Edda.

Mynd með færslu
 Mynd:
Edda Ólafsdóttir

Bæði þvinguð hjónabönd og heiðurstengt ofbeldi

Mál sem Norðmenn eru að fást við eru byrjuðu að berast inn á borð hér á landi. Ásta Kristín Benediktsdóttir, félagsráðgjafi og deildarstjóri hjá Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis, segir að þau tengist heiðursbundnu ofbeldi og þvinguðum hjónaböndum. Hún þekkir ekki til mála sem tengjast umskurði kvenna. Þau eru reyndar afar fátíð í Noregi.

„En svo sannarlega eru dæmi um þvinguð hjónabönd og heiðurstengt ofbeldi í fjölskydum af erlendum uppruna á Íslandi," segir Ásta Kristín.

Flúði ofbeldi og þvingað hjónaband

Ásta sagði frá tveimur dæmum hér á landi. Ungri stúlku af erlendum uppruna sem fædd er á Íslandi. Fjölskylda hennar hefur búið hér í nærri 30 ár og öll hennar systkini eru fædd á Íslandi.

„Hún flúði fjölskyldu sína vegna þess að hún hafði búið við ofbeldi af hálfu föður síns og bróður eftir að hann komst á fullorðinsár um mjög langt skeið. Hún lýsti því fyrir okkur að í uppeldi sínu mátti hún ekki eiga íslenska vini. Hún og systkini hennar þurftu alltaf að fara heim eftir skóla og ekki taka þátt í neinum frístundum. Þau fóru mikið til heimalands síns í fríum. Hún klæddi sig ekki og hagað sér ekki eins og fjölskyldan vildi og þess vegna var hún beitt ofbeldi. Og það stóð til að hún færi til heimalandsins til að giftast í þvingað hjónaband"

- Hvað gátuð þig gert?

„Við gátum hjálpað henni að komast í skjól. Öll svona mál taka langan tíma og í dag er hún bara í góðum málum," segir Ásta Kristín.

Gift til Íslands og algjörlega einangruð

Hitt dæmið var af ungri konu með barn sem leitaði til tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli og óskaði eftir vernd. Hún er búsett hér og var að koma til Íslands frá heimalandi sínu.

 „Hún sagði okkur frá því að hún væri af erlendum bergi brotin og talaði hvorki ensku né íslensku. Var gift hingað til Íslands inn í fjölskyldu af erlendum uppruna. Hún hafði ekkert félagslegt net. Átti ekki bankareikning, hafði ekki umráð yfir neinum fjárhag og var beitt ofbeldi. Hún fór í Kvennaathvarfið og dvaldi þar um tíma. Hún var í verulegri hættu. Maðurinn hennar og fjölskylda hans sátu um hana í langan tíma og hreinlega óskuðu þess að hún myndi deyja. Þau vildu fá barnið. Þetta var virkilega alvarlegt mál. Við gátum líka hjálpað henni með samvinnu margra aðila. Félagsþjónustan og lögreglan spiluðu mjög mikilvægt hlutverk. Einnig Kvennaathvarfið og útlendingastofnun. Í dag fer hún huldu höfði og ég held að henni sé óhætt í dag," segir Ásta Kristín.

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi