Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óskuðu ítrekað eftir leiðbeiningum ráðuneytis

23.04.2019 - 20:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Orkuveita Reykjavíkur segist ítrekað hafa óskað eftir leiðbeiningum frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu um hvað skuli leggja til grundvallar við álagningu vatnsgjalds.

Álagning Orkuveitu Reykjavíkur á vatnsgjaldi ársins 2016 var ólögmæt að mati samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Ráðuneytinu barst stjórnssýslukæra vegna álagningar OR á vatnsgjaldinu þann 19. febrúar. Í úrskurði ráðuneytisins segir að með hliðsjón af 10. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga, sé með öllu óheimilt í gjaldskrá að ákveða hærra gjald en nemur meðalkostnaði af því að veita þjónustuna. Samkvæmt lögum eiga þeir fjármunir sem verða til við rekstur vatnsveitu að fara til frekar uppbyggingar á vatnsveitunni og er réttur til arðtöku af rekstrinum takmarkaður. Ráðuneytið hyggst taka til skoðunar gjaldskrár vatnsveitna allra sveitarfélaga í kjölfar úrskurðarins.

Í fréttatilkynningu frá Orkuveitunni vegna málsins segir að ítrekað hafi verið óskað eftir leiðbeiningum frá ráðuneytinu um hvað skuli leggja til grundvallar við álagningu vatnsgjalds. Í lögum um vatnsveitur sveitarfélaga sé sagt að nánar skuli kveðið á um þetta atriði í reglugerð. Slík reglugerð hafi hins vegar ekki verið sett og hefur OR vísað til leiðbeiningarskyldu stjórnvalda í erindum sínum til ráðuneytisins.

Vegna þessarar óvissu hafi starfsfólk OR átt fund með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja. Í tilkynningunni segir að sveitarfélög sem reki eigin vatnsveitur og veitufyrirtæki, rétt eins og almenningur, eigi talsvert undir því að reglur stjórnvalda séu skýrar hvað þetta varði en ekki að einungis sé sagt hvað ekki megi. Skortur sé á leiðbeiningum frá stjórnvöldum sem nýtist vatnsveitum og viðskiptavinum þeirra.  

Í tilkynningunni segir jafnframt að gjaldskrár vatnsveitu OR, sem reknar eru af dótturfyrirtækinu Veitum, hafi í grundvallaratriðum fylgt þróun vísitölu byggingakostnaðar síðasta áratuginn. Tvisvar á síðustu árum hafi verð lækkað, um rúm ellefu prósent í ársbyrjun 2017 og aftur um tíu prósent 2018. Samanlögð áhrif allra gjaldskrárbreytinga vatnsveitna í Reykjavík frá árslokum 2016 til dagsins í dag svari til rúmlega þrettán prósent lækkunar. 

Ráðuneytið vísaði frá kröfu kæranda um endurgreiðslu. Að mati ORk virðast fjárhagsleg áhrif úrskurðarins við fyrstu sýn óveruleg þar sem gjaldskrár hafi veirð lækkaðar í takti við batnandi afkomu rekstursins. Þau áhrif skýrist þó betur þegar ráðuneytið hafi veitt leiðsögn um gjaldskrárnar. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV