Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Óskar Bergsson hættir við framboð

Mynd með færslu
 Mynd:
Óskar Bergsson, oddviti Framsóknarflokksins, er hættur við að fara fyrir lista Framsóknarmanna í borgarstjórnarkosninum í Reykjavík í vor.

Í yfirlýsingu sem hann sendir fjölmiðlum segir hann að þrátt fyrir stefnumál flokksins, sem hann telji að eigi hljómgrunn meðal almennings, þá hafi málstaður Framsóknarmanna ekki náð í gegn. Hann segist sem oddviti framboðsins bera ábyrgð á gengi flokksins í höfuðborginni og staðan núna sé grafalvarleg.  

Framsóknarmenn í Reykjavík hafi mótmælt áformum um að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni, að Sundabraut sé slegið á frest og að hætt sé við uppbyggingu í Úlfarsárdal. Einnig hafi þeir mótmælt fáum bílastæðum við nýbyggingar í miðbænum og áherslur borgarstjórnarmeirihlutans við þéttingu byggðar. 

Framsóknarflokkurinn náði ekki nógu miklu fylgi í síðustu sveitarstjórnarkosningum til að ná manni inn í borgarstjórn. 

„Bóndi sem ekki uppsker úr jarðvegi sínum hefur aðeins um tvo kosti að velja.  Það er að bregða búi eða leita annarra leiða til njóta ávaxta erfiðis síns“, segir hann meðal annars í tilkynningunni.  

Hann segir að þar sem tæpir tveir mánuðir eru til kosninga sé enn möguleiki á því að snúa vörn í sókn. Hann metur því stöðuna þannig að til að snúa taflinu við, þá sé „réttur tímapunktur núna að ég stígi til hliðar sem oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík“. 

Guðrún Bryndís Karlsdóttir, sjúkraliði og verkfræðingur, var í öðru sæti á lista framsóknarmanna sem samþykktur var í haust.