
ÖSE vill hert viðurlög við undirskriftafalsi
Þar er vikið að fölsununum sem Íslenska þjóðfylkingin varð uppvís að í aðdraganda kosninganna, sem var vísað til lögreglu til rannsóknar. Flokkurinn dró framboð sitt í öllum kjördæmum til baka. Í skýrslu ÖSE segir að fulltrúar yfirkjörstjórna hafi í viðtölum við kosningaeftirlitsmenn lýst efasemdum um að málið hefði lagalegar afleiðingar, enda gæti orðið of erfitt að sanna hver væri ábyrgur fyrir fölsununum.
Kalla eftir reglum um neikvæðar netherferðir
Skýrslan ber með sér að kosningaeftirlitsmennirnir hafi að mestu leyti verið ánægðir með framkvæmd kosninganna, sem hafi verið lýðræðislegar. Eftir sem áður eru í skýrslunni ýmsar ábendingar um atriði sem betur mættu fara. Á meðal þeirra er að hugsanlega þurfi að koma á fót einhvers konar miðlægri stofnun sem fer með málefni kosninga á Íslandi, í stað þess að ólíkir þættir framkvæmdarinnar séu á hendi dómsmálaráðuneytisins, sjálfstæðrar landskjörstjórnar, sjálfstæðra yfirkjörstjórna og sjálfstæðra undirkjörstjórna. Enn fremur væri rétt að þjálfa kjörstjórnarmenn betur.
Kosningaeftirlitsmennirnir leggja einnig til að farið verið yfir framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu og reynt að koma í veg fyrir að hún hefjist áður en framboðsfrestur renni út. Þá segja þeir að setja þurfi lög eða reglur um kosningaáróður þriðju aðila – þar vísa þeir sérstaklega til neikvæðra auglýsingaherferða á netinu sem ekki voru í nafni stjórnmálaflokka.
Vilja meiri upplýsingar um fjármál flokka
Enn fremur leggja kosningaeftirlitsmennirnir til að 200.000 króna viðmiðunarmörk í lögum um fjármögnunum stjórnmálasamtaka verði lækkuð, þannig að flokkar þurfi að gefa upp hverjir styrkja þá um smærri upphæðir en svo.
Þá telja þeir að skilgreina þurfi betur hverjir teljast tengdir aðilar þegar kemur að framlögum til flokka, og að flokkar ættu að skila sérstaklega til Ríkisendurskoðunar upplýsingum um fjárframlög og útgjöld til kosningabaráttu. Þær upplýsingar ættu að vera gerðar aðgengilegar kjósendur áður en kosið er. Einnig er lagt til að Ríkisendurskoðun fái heimild til að sekta flokka sem brjóta gegn lögum um fjármál stjórnmálasamtaka.