Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ósáttur við útdrátt Barrs úr Rússarannsókninni

Mynd með færslu
 Mynd:
Robert S. Mueller, sérstakur saksóknari sem stýrði rannsókninni á afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum 2016, ritaði dómsmálaráðherranum William P. Barr bréf í lok mars, þar sem hann lýsti óánægju sinni með fjögurra blaðsíðna útdrátt Barrs úr niðurstöðum rannóknarinnar. Í bréfinu segir hann útdráttinn ekki ná fyllilega utan um samhengi, eðli og megininntak skýrslunnar og helstu niðurstöður hennar.

Frá þessu er greint í Washington Post, sem komst yfir afrit af bréfinu í gær. Í bréfinu - og í símtali sem þeir Mueller og Barr áttu í framhaldinu - birtist glögglega hve ósammála þeir voru um innihald skýrslunnar, túlkun þess og framsetningu, segir í frétt blaðsins.

Mueller sendi bréfið 27. mars. Nokkrum dögum fyrr hafði Barr tilkynnt að Mueller hefði ekki fundið neitt sem benti til samsæris Rússa og kosningateymis Donalds Trumps. Í útdrættinum sem Barr sendi fulltrúadeild þingsins sagði dómsmálaráðherrann líka að Mueller hefði ekki komist að neinni niðurstöðu um það, hvort Trump hefði reynt að hindra framgang réttvísinnar með afskiptum sínum af rannsókninni eða ekki. Hann, Barr, hefði hins vegar sjálfur farið yfir sönnunargögnin í málinu og komist að því að þau nægðu engan veginn til að standa undir slíkri ásökun.

Veldur óvissu og vantrausti

Útdrátturinn sem ráðuneytið sendi þinginu, segir Mueller, „náði ekki fyllilega utan um samhengi, eðli og megininntak vinnu og niðurstaðna þessa embættis.“ Afleiðingin sé sú, að nú ríki „óvissa meðal almennings um mikilvæga þætti í niðurstöðum rannsóknar okkar. Þetta er líklegt til að grafa undan einum megintilgangi ráðuneytisins með skipun sérstaks saksóknara: Að tryggja fullt traust almennings til niðurstaðna rannsóknanna,“ skrifar Mueller. Hann fór jafnframt fram á það við Barr að hann birti skýrsluna alla, en þó með nokkrum útstrikunum sem hann gerði sjálfur tillögur um.

Haft er eftir embættismönnum í dómsmálaráðuneytinu að þeim hafi verið brugðið við hvassan tóninn í skrifum Muellers, og að þessar áhyggjur hans hefðu komið þeim á óvart. Barr kemur fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar þingsins í dag, þar sem reiknað er með að hann verði spurður í þaula um samskipti þerra Muellers. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV