Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ósáttur við Gæsluna en viðurkennir samt brot á reglum

21.02.2020 - 17:54
Mynd: RÚV / RÚV
Framkvæmdastjóri hvalaskoðunarfyrirtækis sem gerir út skipið Ameliu Rose, sem Landhelgisgæslan vísaði til hafnar í gærkvöld, er ósáttur við vinnubrögð Gæslunnar í málinu. Hann viðurkennir brot á reglum en segir halla á fyrirtækið í málinu.

„Í fyrsta lagi þá er skipstjórinn með full réttindi en hann var ekki með skírteinið á sér. Í öðru lagi þá var full lögskráð áhöfn á skipinu, þetta er allt í gögnum frá lögskráningarstofu. Þeir segjast koma um borð vegna þess að skipstjórinn hafi ekki tilkynnt sig út. En af einhverjum ástæðum þá gleymdi hann því,“ segir Svanur Sveinsson, framkvæmdastjóri Sea Trip Reykjavík hf. 

Er það þá ekki brot á tilkynningarskyldu fyrst hann gleymdi því?

„Jú, það er það sjálfsagt en þetta er mjög algengt. Í þessu tilfelli hjá okkur þá taka þeir þá ákvörðun að manna skip frá sér og koma á eftir okkur,“ segir Svanur.

53 farþegar voru um borð, en leyfilegum farþegum skipsins var fækkað úr 70 í 50 í nóvember. 

„Og það gera þeir bara við okkur, ekki aðra sem eru með færri innisæti heldur en leyfi er fyrir hjá þeim,“ segir Svanur.

En ef búið var að minnka leyfi hjá ykkur, var það þá ekki brot á reglum að hafa 53 um borð?

Jú, ég fór yfir þetta með skipstjóranum í morgun og hann sagðist hafa bara talið vitlaust.“

Þú ert þá í raun búinn að viðurkenna bæði brot á tilkynningarskyldu og fjölda farþega. Ertu samt ósáttur við Landhelgisgæsluna í þessu máli?

Með tilkynningarskylduna, ef þeir hefðu bara kallað í okkur eins og þeir gera venjulega, í gegnum talstöð eða hringja um borð í skipið.“

Landhelgisgæslan stendur við tilkynningu sína um málið. Hún segist áður hafa þurft að hafa afskipti af þessu skipi og ítrekar að reglur séu skýrar. 

„Þeir hafa komið þrisvar, fjórum sinnum síðustu tvö ár síðan við byrjuðum og gert athugasemdir. En þær eru ekki meiri en svo að við höfum ekki fengið eina einustu ákæru á okkur,“ segir Svanur.

Er þetta mál sem þú ætlar að reyna að taka lengra eða hvað?

Við eigum bara eftir að fara yfir þetta með lögfræðingnum hjá okkur.“

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV