Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ósáttur við að vera sakaður um óheiðarleika

28.05.2017 - 15:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kastljós
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segist hafa verið ósáttur þegar Jón Ásgeir Jóhannesson sakaði hann og vinnufélaga hans um óheiðarleika í bréfi til Fréttablaðsins fyrir þremur árum. „Mér líkaði það ekki. Hvorki ég né vinnufélagi minn erum óheiðarlegir og mér líkar það ekki vel þegar slíkt er sagt opinberlega.“

Þetta var meðal þess sem kom fram í viðtali Viktoríu Hermannsdóttur við Grím í þættinum Sunnudagssögum á Rás 2 í dag.  

Í viðtalinu fór Grímur yfir víðan völl en hann hefur verið lögreglumaður nánast samfleytt í þrjátíu ár ef undanskilið er eitt ár þar sem hann vann á endurskoðunarskrifstofu.

Grímur var spurður út í bréfið sem Jón Ásgeir Jóhannesson skrifaði í Fréttablaðið eftir dóm í Aurum-málinu svokallaða. Þar sagði Jón að tveir menn hjá Ríkislögreglustjóra og svo sérstökum saksóknara hefðu farið fremstir í flokki í rannsóknum á sér - Grímur og Sveinn Ingiberg Magnússon. „Ég leyfi mér að vona að fleiri jafn óheiðarlegir lögreglumenn fyrirfinnist ekki hér á landi,“ skrifaði Jón Ásgeir.

„Í þessari grein sakaði hann mig um óheiðarleika - mér líkaði það ekki,“ sagði Grímur í viðtalinu. „Ég og Sveinn Ingiberg erum ekki óheiðarlegir og mér líkaði ekki þegar slíkt er sagt opinberlega.“ Hann segir þó að menn verði að hafa í huga að menn sem séu bornir sökum taki oft til varna og „horfi oft öðrum augum á atburðina en maður sjálfur.“ Maður verði því að reyna að taka orðum eins og þessum ekki of persónulega.

Grímur fór til sérstaks saksóknara þegar embættið var stofnað eftir hrun og var þar þangað til að hann var tímabundið settur yfir miðlæga rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Sú deild er frekar ný þar sem fjármálabrotadeild, skipulögð brotastarfsemi, fíkniefnadeildin og hluti af ofbeldisbrotadeildinni eru sameinuð undir einn hatt. 

Grímur segir að setja þurfi aukinn kraft í rannsóknir á fíkniefnamálum því það hafi heldur verið dregið úr þeim rannsóknum. „Það er ekkert leyndarmál að það er lögð áhersla á kynferðisbrot, heimilisofbeldi og alvarleg ofbeldisbrot hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.“ Hann kveðst þó vona að þetta standi til bóta og að fleiri komi að rannsóknum þessara mála.  

Grímur var einnig spurður út í mál Birnu Brjánsdóttur sem kom upp um miðjan janúar og íslenska þjóðin fylgdist með. Heilt yfir finnst honum að lögreglunni hafi tekist vel upp þótt vissulega hafi eitthvað ekki farið eins og hann hefði nákvæmlega viljað. Hann hafi aldrei hugsað að það hafi verið mistök að hafa málið jafn opið og raun bar vitni. „Umhverfið var bara þannig að fólk fann sig inn í þessu máli og fylgdist með því.“ 

Grímur segir að meðan á rannsókn mála eins og þessa standi geti menn ekki leyft sér að taka það inn á sig. „Ég hef sagt að maður sé illa settur ef maður sækist bara eftir játningu. Það er verið að leita sannleikans og það er betra að enginn sé handtekinn frekar en rangur maður.“ Hann segist ekki hafa farið og fengið áfallahjálp eftir að rannsókn lögreglu lauk, „Það verður hver og einn að meta hvað hann þarf og það skiptir líka máli hvernig baklandið er.“

Hann segir það ofmælt að hann hafi ekkert sofið á meðan rannsókninni stóð, hann hafi til að mynda aldrei sofið á lögreglustöðinni en reynt að skjótast heim og leggja sig í smá tíma.

Þótt Grímur hefði forðast spurningar um einkalíf sitt þá upplýsti hann engu að síður að hann stundaði hjólreiðar í frístundum sínum. „Ég hef alltaf hugsað um heilsuna. Það er engu að síður stundum þannig hjá lögreglumönnum að það er óregla í vinnutímanum og það getur orðið til þess að maður tapar orrustunni um mataræði og þyngist mikið.“ Það hafi til að mynda gerst hjá honum fyrir fimm árum og hann sé að vinna úr því . „Ég byrjaði á því að fara í líkamsrækt, fékk mér þjálfara og tók á mataræðinu.“

Hægt er að hlusta á viðtali við Grím hér.
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV