Ósáttur drengur leitaði ráða hjá Guðna forseta

22.10.2019 - 23:24
Ungur drengur sendi Guðna forseta bréf.
 Mynd: Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsso
Fimm ára gamall úrræðagóður drengur sem féllst ekki á boð og bönn foreldra sinna og skólayfirvalda brá á það ráð að senda Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands handskrifað bréf fyrr í mánuðinum. Hann furðaði sig á ósanngjörnum reglum og leitaði því ráða hjá forsetanum sem svaraði honum um hæl.

Margir hafa eflaust vaknað snemma morguns eftir löng veikindi og ekki treyst sér til vinnu eða skóla en fara svo að hressast og braggast þegar líður á daginn. Sú var raunin hjá Fannari Vilhjálmssyni fimm ára grunnskólanema sem glímdi, eins og margir aðrir, við haustflensuna í október. 

„Eftir að hafa vaknað hitalaus einn októberdag var mikil eftirspurn eftir að komast í skólann. Gangan upp skólatröppurnar var þó erfiðari en venjulega og varð þá ljóst að okkar maður var ekki orðinn frískur og því tilkynnt um veikindi.“

Þannig hefst frásögn Vilhjálms Þ. Á. Vilhjálmssonar, föður Fannars, sem vekur athygli á þessu á Facebook. Hann lýsir því hvernig Fannar hafi eftir þetta allur farið að hressast og klukkustund síðar verið sannfærður um að vera orðinn það frískur að hann gæti mætt í skólann. Og það vildi hann ólmur gera. Foreldrar Fannars tilkynntu honum þá að hann gæti ekki mætt því skólanum hefði verið tilkynnt um veikindi hans fyrr um morguninn. 

Fannar furðaði sig á þessu og fannst ósanngjarnt að mega ekki mæta í skólann verandi orðinn frískur. Hann féllst því ekki strax á svör foreldra sinna og vildi heldur spyrja forsetann að því hvort þetta gæti staðist. Fannar sendi því Guðna forseta bréf og sló þannig tvær flugur í einu höggi, æfði handskriftina og viðraði vangaveltur sínar við sjálfan forsetann. 

Bréf Fannars til forsetans.

„Það var litla spennan í dag þegar heima beið bréf frá Bessastöðum,“ lýsir Vilhjálmur. Fannari hafði þá borist svar frá forsetanum. Þar þakkar hann Fannari fyrir bréfið og segir fyrirspurn hans allrar athygli verða.

„Hafi maður tilkynnt veikindi og mætir svo glaður og hress í skólann vaknar sú hætta að fólk gruni mann um græsku, að maður hafi verið að plata í upphafi og svo snúist hugur, eða fengið samviskubit. En svo getur hitt auðvitað vel komið til álita að maður hafi í raun verið veikur og illa fyrirkallaður en orðið hressari, nánast á augabragði,“ útskýrir Guðni fyrir Fannari. 

Niðurstaða hans sé því sú að við áhugaverðum vangaveltum Fannars sé í raun ekkert eitt svar, hvert tilvik verði að skoða fyrir sig. Hann minnir þó á að meginreglan eigi að vera sú að mæta alltaf í skólann nema veikindi og önnur forföll geri það ókleift og óskar Fannari velfarnaðar í námi, leik og starfi. 

Svar Guðna við bréfi Fannars.
solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi