Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Ósáttir við reglugerð Steingríms

21.05.2013 - 18:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Hrefnuveiðimenn eru ósáttir við þá ákvörðun atvinnu- og nýsköpunarráðherra að stækka griðasvæði hvala í Faxaflóa, rétt áður en hann lætur af störfum. Með þessu sé í raun verið að koma í veg fyrir hrefnuveiðar í Faxaflóa.

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnu- og nýsköpunarráðherra, undirritaði í dag reglugerð um stækkað griðasvæði hvala í Faxaflóa. Þetta er gert í framhaldi af deilum hvalveiðimanna og hvalaskoðunarmanna um veiðisvæði í Faxaflóa. Nú eru veiðar bannaðar innan bogadreginnar línu frá Garðskagavita að Akranesi, en frá miðnætti verða þær bannaðar utan beinnar línu frá Garðskagavita að Skógarnesi á Snæfellsnesi.

Gunnar B. Jónsson, talsmaður hrefnuveiðimanna, segir að með þessu lendi áttatíu prósent veiðisvæða í Faxaflóa innan griðasvæðis. „Þarna er í raun og veru búið að loka Faxaflóanum. Þannig að öll okkar plön fyrir sumarið og allt sem við höfum lagt með í undirbúningi er nú fyrir bí, og við þurfum að endurmeta þetta allt saman.“

Hann gagnrýnir að enginn fyrirvari sé gefinn og undrast að svona ákvörðun sé tekin á allra síðustu dögum fráfarandi ríkisstjórnar. „Það var alla vega mikið kappsmál að klára þetta svona rétt áður en menn stigu upp úr stólnum. Ég veit svo sem ekkert af hverju það er. Alla vega þá er það klárt mál að þessi reglugerð er sett í dag.“ Nú sé ljóst að hrefnuveiðimenn sem ætluðu til veiða í fyrramálið verða að láta af þeim áformum. Stækkun griðasvæðisins leiði til þess að nú verði ekki lengur hægt að fara í dagróðra til hrefnuveiða.