Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ósáttir við niðurskurð í landvörslu

02.02.2014 - 12:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Mývetningar óttast að niðurskurður í landvörslu hafi neikvæðar afleiðingar. Ferðamönnum í Mývatnssveit hefur fjölgað verulega á undanförnum árum með tilheyrandi átroðningi á viðkvæmum svæðum.

Landverðir í Mývatnssveit hafa haft í nógu að snúast undanfarin ár og verkefnunum hefur fjölgað með auknum straumi ferðamanna. Náttúran er viðkvæm. Verndarsvæði Mývatns og Laxár er á rauðum válista Umhverfisstofnunar og í fyrra komust Skútustaðagígar á appelsínugulan lista einkum vegna aukins átroðnings ferðamanna allan ársins hring. Þrátt fyrir þetta verður landvarsla í Mývatnssveit dregin verulega saman í sumar - eins og reyndar á landinu öllu - vegna lægri fjárframlaga til Umhverfisstofnunar.

Landverðir hafa umsjón með friðlýstum svæðum, veita ferðamönnum upplýsingar og sjá um göngustíga og merkingar svo fátt eitt sé nefnt. Árið 2012 voru vinnuvikur landvarða í Mývatnssveit um 50, þær voru rúmlega 62 í fyrra en í ár verða þær 43.

Guðrún María Valgeirsdóttir, sveitarstjóri Skútustaðahrepps, segir þetta í ósamræmi við fjölgun ferðamanna. „Þetta er bara mjög uggvænleg þróun og já ég bara hef verulegar áhyggjur af henni. Umhverfisstofnun hefur nú ekki verið ofhaldin, hvorki af mannskap né fjármagni hér í Mývatnssveit undanfarin ár, og ég sé bara ekki hvernig stofnunin á að komast yfir sín verkefni.“

Guðrún segir að Mývetningar óttist að niðurskurður til landvörslu hafi neikvæðar afleiðingar á náttúru svæðisins. „Það er alveg ljóst að eitthvað mun undan láta. Ég held að það muni segja sig sjálft.“