Ósammála um fiskeldi í Ólafsfirði

03.05.2017 - 16:39
Ólafsfjörður
 Mynd: Atli Þór Ægisson
Arnarlax hyggst opna vinnslu fyrir fiskeldi í Ólafsfirði sem áætlað er að geti skapað um 70 ný störf á svæðinu. Bæjarstjóri ætlar að undirrita viljayfirlýsingu á næstu dögum um að fiskeldið komi. Varaformaður Vinstri grænna gagnrýnir áformin og segir að Ólafsfjörður sé ekki heppilegur til fiskeldis.

Undirrita viljayfirlýsingu

Á næstu dögum er áætlað að skrifað verði undir viljayfirlýsingu milli sveitarfélagsins Fjallabyggðar og Arnarlax um byggingu vinnslustöðvar í Ólafsfirði en fyrirtækið hyggst setja niður kvíar í Eyjafirði og framleiða 10.000 tonn af laxi á ári. 

Gunnar Birgisson, bæjarstjóri í Fjallabyggð, segir að framleiðslan geti skapað 70 ný störf í Ólafsfirði sem hafi í för með sér mikil tækifæri fyrir bæjarfélagið.   

„Þarna er náttúrulega góð hafnaraðstaða, nægilegt pláss fyrir fiskvinnsluna og aðstaða fyrir þjónustu við kvíarnar. Við erum í Ólafsfirði með góða innviði, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, íþróttahús og sundlaug og nægar lóðir til að byggja. Þannig að það er allt þarna fyrir hendi," segir Gunnar. 

Efast um aðstæður í Ólafsfirði

Ólafsfirðingurinn Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna, gagnrýnir áformin og efast um að aðstæður í Ólafsfirði séu heppilegar fyrir starfsemi af þessu tagi. Þar sé oft vont sjólag á veturna og veður slæmt. 

„Ólafsfjörður er þekktur fyrir hafnleysu, skip hafa þurft að flýja höfnina bæði undan slæmum veðurspám og veðri og ég hef margsinnis tekið þátt í því í gegnum tíðina. Þannig að ég átta mig ekki alveg á því hvernig minn gamli heimafjörður getur verið draumastaður til að vera með laxeldi í sjó," segir Björn Valur. 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi