Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ósammála um afhendingu náðhúss við Braggann

22.10.2018 - 19:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson
Háskólanum í Reykjavík og Reykjavíkurborg ber ekki saman um hvort búið sé að afhenda skólanum til rekstrar náðhús sem á að hýsa fundarherbergi, við Braggann í Nauthólsvík. Skemmdarverk var framið á stráum við Braggann í nótt.

Reykjavíkurborg fullyrðir í skriflegu svari til fréttastofu að Háskólinn í Reykjavík hafi samþykkt að taka við byggingunum um miðjan september eins og þær eru í dag. Upplýsingafulltrúi borgarinnar segir að búið sé að afhenda háskólanum bragga, skemmu og náðhús til rekstrar. Reykjavíkurborg hafi lokið framkvæmdum á svæðinu en náðhúsið sé ekki fullklárað og að það sé HR að ákveða hvort ljúka eigi framkvæmdum. Samkvæmt upplýsingum frá HR hefur náðhúsið ekki verið afhent til leigu. 

Eins og kunnugt er fór bragginn langt fram yfir kostnaðaráætlun. Innflutt strá við braggann voru rifin upp með rótum í nótt. Veitingastjóri Braggans segir að nú sé aðeins um helmingur stráanna uppistandandi. Ekki hafi orðið vart við fleiri skemmdarverk í kringum braggann. HR sá til þess að stráin yrðu sett aftur niður.

„Það var búið að rífa lang mest af og búið að henda þeim út um allt útisvæðið okkar. Í rauninni bara, alls ekki gott að koma að þessu eins og þetta var. þetta var hræðileg aðkoma, ég reyndi að taka sem mest sjálfur, smúlaði aðeins yfir svæðið. Þetta var náttúrulega rifið upp með rótum þannig það var mikil mold og svona tað og dót í kringum þetta,“ segir Dalmar Ingi Daðason, veitingastjóri á Bragganum Bistró.

Hafiði skilning á þessari reiði í kringum braggann? „Já það er auðvitað skilningur yfir því, þegar að svona skemmdarverk eiga sér stað er engan skilning hægt að sýna sko. Þetta er leiðinlegt mál og við kemur okkur ekkert varðandi kostnaðinn eða neitt svoleiðis. Við erum bara rekstraraðilar hérna,“ segir Dalmar jafnframt.