Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ósammála því að Dagur eigi að víkja úr hópnum

04.01.2019 - 08:48
Mynd:  / 
Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir að það sé fráleit krafa að borgarstjóri víki úr hópi sem ætlað er að rýna í niðurstöður skýrslu innri endurskoðunar borgarinnar um braggamálið. Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, fulltrúi minnihlutans í hópnum, hefur farið fram á að borgarstjóri víki þar sem skýrslan sýni að hann beri ábyrgð í málinu.

„Það er mikill samhugur í meirihlutanum. Við erum öll sammála um að þetta sé vont mál en sem betur fer fór það í góðan farveg. Skýrslan tekur stuttan tíma. Hún tekur af ýmis vafamál. Ég er ekki sammála Hildi að það sé einhver niðurstaða að Dagur B. Eggertsson beri ábyrgð, þvert á móti, það sem kemur skýrt fram er að það sé engin ástæða til að hengja þetta utan um hálsinn á honum. Það er líka niðurstaða skýrslunnar, þannig að það er farið mjög ítarlega í það,“ sagði Kristín Soffía í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

Og þú ert algjörlega ósammála því að hann eigi að víkja úr þessum hópi sem á að rýna í niðurstöðurnar og vinna að úrbótum, að hans seta þar sé alveg trúverðug öfugt við það sem Hildur heldur fram? „Já, ég skal ganga lengra og segja að mér finnst sú krafa fráleit. Ég held akkúrat að hann eigi að sitja. Mér finnst það eins og að víkja ráðuneytisstjóra úr vinnu sem tekur á sínu eigin ráðuneyti. Niðurstaðan er ekki sú að Dagur beri ábyrgð á þessu.“ 

Hildur var einnig gestur þáttarins. Hún sagði að í skýrslunni segi nánast orðrétt að þó að skrifstofustjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar borgarinnar beri ábyrgð leysi það ekki borgarstjóra undan ábyrgð, hann hafi verið hans næsti yfirmaður. Hildur hefur lýst því yfir að ef borgarstjóri víki ekki úr hópnum ætli hún að segja sig úr honum. „Þegar að vera borgarstjóra í þessari nefnd er einhvern veginn farin að grafa undan trúverðugleika þess að vinnan verði fagleg og vönduð þá er auðvitað betra að þú sjáir það hjá sjálfum þér að þú ert ekki stærri en vinnan og ekki stærri en niðurstaðan að þú bara stígir til hliðar. Mér þætti það bara eðlilegt og mér finnst vont að taka þátt í þessari vinnu og vera partur af henni ef hópurinn er einhvern veginn rúinn trausti,“ segir Hildur. Þriðji fulltrúinn í hópnum er Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs. 

Fréttin hefur verið uppfærð.