Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Öryrkjum hefur fjölgað um 79% á 15 árum

25.08.2015 - 19:44
Mynd með færslu
 Mynd: Dominik Golenia - flickr.com
Öryrkjar eru tæplega 80% fleiri nú en um aldamótin, en landsmönnum öllum hefur fjölgað um 18% á sama tíma. Framkvæmdastjóri Virk starfsendurhæfingarsjóðs segir of margar hindranir í bótakerfinu fyrir fólk til að komast á vinnumarkað.

 

Árið 2000 tæplega 9.596 manns örorkulífeyri hér á landi. Nú fá 17.175 manns lífeyrinn. Það er 79% fjölgun á 15 árum. Á sama tíma hefur landsmönnum í heild fjölgað um 18%.

Hlutfall öryrkja af fólki á vinnumarkaðsaldri hefur einnig farið stigvaxandi á sama tíma. Það var 5,6% árið 2000 en er nú 8,1%. Hlutfallið er tæp 9% ef þeir sem fá endurhæfingarlífeyri eru taldir með. 38% öryrkja eru með geðraskanir og 29% með stoðkerfisvanda og eru þetta langalgengustu orsakir örorku.

Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar sagðist í fréttum RÚV í gær vilja fá botn í hvers vegna öryrkjar væru svo margir hér á landi. Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri Virk starfsendurhæfingarsjóðs bendir á að fyrst eftir hrun hafi fjölgunin ekki verið mikil. „Hún hefur verið að aukast hins vegar undanfarið og það er áhyggjuefni, og kannski erum við líka þá að takast á við afleiðingar þessa efnahagshruns núna.“

Vigdís segir að starfsendurhæfingin hafi gengið vel og stærsti hópurinn sem komi þangað snúi aftur til vinnu. Hins vegar þurfi bótakerfið að styðja betur við þátttöku á vinnumarkaði. „Það eru til staðar of margar hindranir, og sem dæmi þá er erfitt fyrir einstaklinga að takast á við hálft starf á vinnumarkaði þar sem hjá Tryggingarstofnun eru ekki hálfar bætur.“

Þá fái geti einstæðir foreldrar fengið meiri stuðning á örorkulífeyri en á vinnumarkaði. Vigdís er sammála formanni fjárlaganefndar um aukna áherslu á starfsgetumat í stað örorkumats. „Það er sú leið sem löndin í kringum okkur hafa verið að fara. Það er að horfa á það sem fólk getur gert í staðinn fyrir að horfa bara á það sem fólk getur ekki gert.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV