Öryrkjar tapa á tekjutengingu

02.05.2010 - 12:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórn Tryggingastofnunar hefur skorað á félags- og tryggingamálaráðherra að draga úr eða afnema tekjutengingu gagnvart örorkubótum frá ríki. Stjórnarformaður Tryggingastofnunar segir að tengingin geri það að verkum að í hvert sinn sem ríkið hækki bæturnar lækki lífeyrissjóðirnir sínar greiðslur og hirði því í raun kjarabót öryrkjans.

Fyrir nokkru fóru lífeyrissjóðir á almennum vinnumarkaði að miða greiðslur til öryrkja við tekjur þeirra áður en þeir urðu fyrir örorkutapi, þannig að greiðslur, þar með taldar greiðslur frá almannatryggingum, geti ekki orðið hærri en fyrri laun.

Stefán Ólafsson, formaður stjórnar Tryggingastofnunar, segir mikið álitamál hvort það geti talist eðlilegt að áunnin réttindi hjá lífeyrissjóði séu skert vegna greiðslna frá Tryggingastofnun. Lífeyrir úr lífeyrissjóðunum sé í raun réttindi sem eigi að bætast við lágmarksframfærslueyri frá ríkinu.

Í ársbyrjun í fyrra hugðist ríkið vernda öryrkja með lágar tekjur í kreppunni og hækkaði greiðslur frá almannatryggingum. Sú kjarabót skilaði sér þó ekki til öryrkja nema að takmörkuðu leyti. „Sú hækkun rennur fyrst og fremst til lífeyrissjóðanna", segir Stefán. „Þeir geta sparað sér útgjöld til þessarra lífeyrisþega. Þetta á við um þá sem eru með mjög lágar greiðslur úr lífeyrissjóðunum, yfirleitt undir 60 þúsund krónum á mánuði. Þá færist þetta yfir á ríkið."

Tekjutenging milli almannatrygginga og lífeyrissjóða er gagnkvæm. Þegar lífeyrissjóður skerðir greiðslur, bætir Tryggingastofnun öryrkjanum tapið að hluta til. Við það skerðir lífeyrissjóðurinn aftur greiðslur sínar og Tryggingastofnun bætir hlutann af þeirri skerðingu. Niðurstaðan af þessari víxlverkun í tilviki öryrkja sem lífeyrissjóðurinn sá ástæðu til að skerða greiðslur til um tíu þúsund krónur í upphafi, er sú að lífeyrissjóðurinn skerðir greiðslur um 25 þúsund krónur og útgjöld Tryggingastofnunar til öryrkjans aukast um 15 þúsund. Öryrkinn missir eftir sem áður tíu þúsund krónur.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi