Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Öryrkjar kalla eftir bættum lífskjörum

04.04.2019 - 22:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Öryrkjar kalla eftir svörum um það hvaða áhrif lífskjarasamningurinn hefur á þeirra kjör. Forsætisráðherra segir þar af ýmsu að taka. Kjarasamningar hafi áhrif, en einnig sé von á tillögum um sérstakar kjarabætur fyrir örorkulífeyrisþega.

Kveðið er á um ýmsar aðgerðir stjórnvalda í tengslum við nýgerða kjarasamninga, svokölluðum lífskjarasamningi. Öryrkjum og lífeyrisþegum hefur hins vegar þótt vanta dálítið upp á að þeirra væri getið. 

„Já, mér fannst það vanta að það væru nefndir þarna þessir hópar inni í þessum lífskjarasamningi, því auðvitað eiga þeir að vera þarna líka,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalags Íslands.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir aðgerðirnar nýtast öllum.

„Aðgerðir stjórnvalda eru auðvitað almennar og nýtast þannig öllum almenningi. Ef við ræðum til dæmis skattkerfisbreytingarnar þá munu þær gagnast öllum tekjulægri hópum sama hverjir það eru. Þessar breytingar miða sérstaklega að því að koma til móts við tekjulægstu hópana þannig að sjálfsögðu munu þær hafa áhrif þar.“

Katrín nefnir einnig barnabætur og lengra fæðingarorlof sem komi helst tekjulágu barnafólki til góða, sem og skref til afnáms verðtryggingar. Þá skipti uppbygging félagslegs húsnæðiskerfis ekki síst máli. Formaður Öryrkjabandalagsins segir margt jákvætt í samningnum, ekki síst húsnæðismál og skattalækkun. Hún hefur kallað eftir svörum um hvernig lífskjarasamningurinn nýtist hennar hópi.

„Ég bara bind miklar vonir við það að þau stígi það skref að gera eitthvað fyrir þennan hóp því það hefur ekki verið gert lengi. Þessi hópur er langt undir atvinnuleysisbótum til dæmis í dag og það þykir mér vera mjög alvarlegt mál.“ 

Forsætisráðherra segir að unnið sé að bættum kjörum öryrkja.

„Kjarasamningar á almennum markaði hafa auðvitað áhrif inn í kjör annarra hópa og síðan er það auðvitað svo að á fjárlögum þessa árs eru eyrnamerktir 2,9 milljarðar í kjarabætur handa örorkulífeyrisþegum og það er von á tillögum frá starfshópi félagsmálaráðherra um það hvernig er skynsamlegast að nýta þá fjármuni þannig að þeir gagnist þessum hópi sem best.“

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV