Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Öryggisverðir fá sérstaka þjálfun vegna #metoo

19.01.2018 - 08:59
Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
„Það er verið að ráðast á frönsk gildi með því að ráðast á daðrið og þar með fer allt í hnút,“ segir Kristín Jónsdóttir, sem er búsett í Frakklandi um viðbrögð þar í landi við metoo hreyfingunni. Kristín var í viðtali á Morgunvaktinni á rás 1 í morgun.

Nokkrar deilur hafa sprottið í Frakklandi vegna metoo hreyfingarinnar. Fjöldi kvenna í Frakklandi finnst metoo hreyfingin lykta af Stalínisma og  „hugsanalögreglu“, en ekki sannri lýðræðishugsun. Kristín segir að þrátt fyrir það sé mikið að gerast í Frakklandi vegna metoo. „Hreyfingin byrjaði í Frakklandi sem #balancetonporc eða „segðu frá svíninu“ í kjölfarið að frönsk blaðakona nafngreindi sitt svín,“ segir Kristín. 

Hún segir að lögregla og öryggisverðir fái nú sérstaka þjálfun í að taka á málum er snúa að kynferðislegri áreitni. Dæmi eru um að körlum hafi verið hent út úr neðanjarðarlestum vegna áreitni. „Ef vart verður um áreitni í almenningssamgöngum eins og Metro rísa allir upp, það er öskrað og viðkomandi hent út úr vagninum. Nú fá lögreglumenn og öryggisverðirnir í Metro fá sérstaka þjálfun í því að taka þessa gaura í burtu. Öryggi farþega felst núna líka í því að fá frið. Þetta er nýtt og það er frábært,“ segir Kristín.  

Kristín segir að hver kona verði að ákveða sín þolmörk. „Erfitt að festa ramma utan um það hvenær er gengið of langt. Hvenær byrjar eðlilegt daður að verða áreitni, þetta er mjög grátt svæði, við getum verið sammála um það. Hver kona má ákveða sinn ramma, sinn þröskuld. Við verðum að virða þolmörk kvenna,“ segir Kristín.