Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Öryggi ferðamanna ógnað með vondum malarvegum

05.08.2016 - 15:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Slæmir malarvegir að vinsælum ferðamannastöðum stefna öryggi fólks í hættu, segir vegamálastjóri. Meira en tvöfalda þurfi fé til viðhalds vegakerfisins.

Malarvegir, sem liggja að sumum vinsælum ferðamannastöðum, eru illfærir venjulegum bílum, eins og fjallað var um í sjónvarpsfréttum í gær. Á sumum veganna eru engar meiri háttar úrbætur áformaðar í fjögurra ára samgönguáætlun sem innanríkisráðherra mælti fyrir á Alþingi í vor.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir ástandið ekki ásættanlegt. Það sé jafnvel ennþá alvarlegra nú að margir af þeim ökumönnum sem nota þessa vegi séu erlendir ferðamenn sem séu alls ekki vanir akstri við slíkar aðstæður.

„Þá er umferðaröryggið í hættu, og slysin náttúrulega hafa aukist mjög í kjölfarið á því. Þannig að þetta er ekki bara spurning um að bílarnir hristast og fólki líður illa að keyra þá, þetta er líka öryggissjónarmið.“

Þórir Garðarsson, varaformaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir tíma til kominn að ríkisvaldið gyrði sig í brók og bæti verulega úr.

„Það náttúrulega segir sig sjálft að við erum með vegakerfi á Íslandi sem er metið á einhverja 600-700 milljarða, og ef við göngum út frá 3% í viðhald á vegum þá erum við að tala um sirka 20 milljarða á ári, en það er einungis verið að setja í þetta 6-7 milljarða. Það er bara hreinlega alltof lítið.“

Hreinn tekur undir þetta, Vegagerðin hafi margoft reiknað út hve mikið fé þyrfti til að geta haldið vegakerfinu í góðu horfi, svo ekki sé talað um kostnað við að vinna upp það sem varð útundan eftir efnahagshrunið 2008.

„Það er að minnsta kosti tvöföld sú upphæð sem er veitt í þennan málaflokk í dag sem þyrfti að vera, ef ætti að vera hægt að sinna þessu með góðu móti.“

 

 

 

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV