Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Öruggt húsnæði er grunnurinn að heilbrigði“

17.07.2017 - 10:59
Mynd með færslu
 Mynd: DPG - Einkasafn
Fjölskylda, sem leitaði að leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, brá á það ráð að fjárfesta í parhúsi á Eyrarbakka. Afborganir af fasteignaláninu eru undir 60.000 krónum á mánuði. Íbúum í Árborg og Hveragerði hefur fjölgað um átta prósent síðan árið 2012 og telur bæjarstjóri að fasteignaverð hafi töluverð áhrif á þá þróun.

Drífa Pálín Geirsdóttir flutti á Eyrarbakka í febrúar síðastliðnum. Áður bjó hún ásamt fimm ára gamalli dóttur sinni í leiguhúsnæði í Hafnarfirði en þurfti að finna nýtt húsnæði þegar leiguhúsnæðið var selt. Á sama tíma var móðir hennar að leita sér að húsnæði svo að þær mæðgurnar ákváðu að finna sér leiguíbúð saman. „Við skoðuðum leigumarkaðinn en verðið var allt of hátt, litlar íbúðir á 230.000 til 260.000 krónur,“ segir Drífa Pálín, sem alltaf hefur búið á höfuðborgarsvæðinu. „Svo nefndi vinkona mín við mig að flytja á Eyrarbakka. Ég kíkti á fasteignaauglýsingar þaðan og hugsaði með mér að þetta væri kannski málið.“

Úr varð að Drífa Pálín og mamma hennar keyptu saman 130 fermetra parhús á Eyrarbakka og una sér vel þar. Húsið er á tæplega 700 fermetra lóð og segir hún að þær hefðu ekki getað keypt slíka fasteign á höfuðborgarsvæðinu. Nú er Drífa á námskeiði í vistræktun og á sér þann draum að verða einn daginn sjálfbær í ræktun á matvælum. „Þannig draumar geta orðið að veruleika á stað eins og Eyrarbakka,“ segir hún.

Góð tilfinning að komast í sitt eigið húsnæði

Afborganir af húsinu eru undir 60.000 krónum á mánuði. Saman greiða þær fasteignagjöld, hita og rafmagn. „Við erum líka saman með matarinnkaup og tókum þá ákvörðun að vera með einn bíl.“ Drífa segir að það sé góð tilfinning að komast úr leiguhúsnæði og í sitt eigið. „Nú er ekki lengur þessi stöðuga streita varðandi það hvar ég eigi eftir að búa eftir hálft ár og að geta ekki sagt barninu mínu það. Streita tengd þessu fer alveg með fólk og börn finna fyrir henni. Öruggt húsnæði er grunnurinn að heilbrigði,“ segir hún.

Fær fleiri heimsóknir á Eyrarbakka

Drífa Pálín er gagnasérfræðingur og vinnur heima, meðal annars við einkakennslu í stærðfræði og við að aðstoða fólk við úrvinnslu rannsókna. Hún segir það hafa komið skemmtilega á óvart að fólk af höfuðborgarsvæðinu setji það ekki fyrir sig að keyra á Eyrarbakka í kennslustund. „Fólki finnst gaman að koma hingað úr bænum. Hér er engin truflun, heldur hægt að draga djúpt að sér andann og hlusta á fuglasöng.“ Þegar Drífa Pálín er spurð hvort hún sakni einhvers af höfuðborgarsvæðinu er svarið einfalt, því hún saknar einskis. „Eftir að ég flutti fæ ég fleiri heimsóknir frá vinum og ættingjum en áður og þannig styrkjast tengslin. Það er eins og fólki finnist minna mál að heimsækja okkur hingað en í Hafnarfjörð.“

Dóttir Drífu Pálínar fer í fyrsta bekk í haust og verður í bekk með níu öðrum nemendum og segir hún það töluvert frábrugðið skólum á höfuðborgarsvæðinu þar sem yfirleitt eru fleiri í hverjum bekk. Það var ekki flókið að kynnast íbúum á Eyrarbakka og segir Drífa Pálín móttökurnar hafa verið góðar. Eitt af því fyrsta sem þær mæðgur gerðu þegar þær fluttu var að ganga í kvenfélagið. „Ég fer mikið út að ganga með hundinn minn og þannig kynnist ég fólki. Ef maður er opinn fyrir því er maður enga stund að kynnast nágrönnunum.“

Fólk á öllum aldri flytur austur fyrir fjall

Straumurinn austur fyrir fjall liggur ekki aðeins í Sveitarfélagið Árborg. Íbúum í Hveragerði hefur fjölgað um átta prósent síðan árið 2012. Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, segir að bæjaryfirvöld hafi brugðist við íbúafjölguninni á ýmsan hátt. Til að mynda sé nú verið að leggja niður einn þriggja deilda leikskóla og byggja sex deilda leikskóla í staðinn. Til stendur að börn geti byrjað ársgömul á leikskóla. Þá segir hún einnig þurfa að bregðast við fjölgun í frístundaskóla og grunnskólinn er þétt setinn.

Það er þó ekki aðeins ungt fjölskyldufólk sem flytur til Hveragerðis, heldur fólk á öllum aldri. „Hingað flytur mjög fjölbreytt flóra fólks. Við finnum fyrir því að eldra fólki finnst notalegt að flytja hingað austur fyrir fjall.“ Aldís segir ljóst að hagstætt fasteignaverð, miðað við á höfuðborgarsvæðinu, hafi sitt að segja varðandi íbúafjölgunina. „Hér er hægt að kaupa einbýli fyrir sama verð og blokkaríbúð á höfuðborgarsvæðinu. Það eru gæði fólgin í því að geta hleypt börnunum beint út í garð að leika,“ segir hún. Nýju íbúarnir í Hveragerði koma víða að en margir þeirra eru frá höfuðborgarsvæðinu, að sögn Aldísar.

 

Hátt í 200 umsóknir um 14 lóðir

Mikil eftirspurn er eftir lóðum í Hveragerði. Aldís nefnir sem dæmi að nýlega hafi 14 lóðum fyrir 28 íbúðir undir parhús við sömu götuna verið úthlutað. 189 umsóknir bárust um lóðirnar. „Það er vandi að vaxa hratt en við höfum ekki viljað vaxa úr hófi fram.“ Áætlað er að á lóðinni þar sem Eden og Tívolí voru áður rísi blönduð byggð og þjónusta. „Þar verða smærri íbúðir og hagkvæmir búsetukostir. Við erum alltaf að huga að nýjum byggingarsvæðum og þá sérstaklega að til séu lóðir af ýmsum stærðum.“

Aldís segir ljóst að sveitarfélögin sem eru í um 50 kílómetra fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu séu orðin augljós kostur í augum þeirra sem vilja nýta sér þjónustu í Reykjavík. Hveragerði sé í aðeins 38 kílómetra fjarlægð frá Reykjavík og almenningssamgöngur góðar.
dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir