Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Orrustur í lofti heyra nánast sögunni til

22.06.2017 - 07:02
epa03686923 (FILE) A file picture dated 04 November 2012 shows an Israeli F-15 jet fighter as it lowers its landing gear to come in for landing at an air force base in southern Israel. According to media reports on 04 May 2013, the US government believes
Ísraelsk orrustuþota. Mynd: EPA - EPA FILE
Afar sjaldgæft er að orrustuþotur séu skotnar niður af öðrum orrustuþotum. Það gerðist hins vegar á sunnudaginn þegar bandarískur orrustuflugmaður skaut niður sýrlenka orrustuþotu sem hafði gert loftárásir á hversveitir í Sýrlandi sem njóta stuðnings Bandaríkjahers.

Atvik sem þetta eru svo sjaldgæf að þetta gæti verið í fyrsta skipti sem mönnuð bandarísk orrustuþota skýtur niður aðra mannaða orrustuflugvél síðan 1999.

Þetta kemur ýmsum spánskt fyrir sjónir, sérstaklega aðdáendum spennumynda á borð við Top Gun. Bardagar þar sem orrustuþotur takast á hafa nærri því horfið af háloftunum yfir vígvöllum nútímans.

Ástæðan er fyrst og fremst sú að yfirburðir herafla Bandaríkjanna, og bandamanna þeirra, í lofti eru slíkir að herir óvinveittir þeim leggja ekki í að takast á í lofti. Aðeins 59 orrustuþotur voru skotnar niður af orrustuþotum frá því á tíunda áratugnum fram til ársins 2015. Af þeim var langflestum grandað í Persaflóastríðinu, þar sem bandaríkjaher sýndi fram á algjöra yfirburði sína í lofti.

Beita flugher ef enginn óvinur er í lofti

Alls grönduðu bandarískar orrustuþotur og bandamenn þeirra 33 íröskum orrustuflugvélum en misstu aðeins eina orrustuþotu af gerðinni F-18. Í kjölfarið lögðu flest ríki orrustuþotum sínum, í það minnsta þegar útlit var fyrir að þær myndu mæta bandarískum orrustuþotum.

Það hefur þó ekki hindrað Bashar al-Assad Sýrlandsforseta í að beita flugher sínum til að varpa tunnusprengjum á andstæðinga sína í trausti þess að flugher hans ráði lögum og lofum í lofthelgi Sýrlands.

Flugherinn falinn neðanjarðar

Í Íraksstríðinu 2003 er Saddam Hussein sagður hafa falið flugflota sinn neðanjarðar til að forða honum frá því sem næst óumflýjanlegri eyðileggingu væri hann sendur til orrustu við flugher Bandaríkjanna.

Sama var uppi á teningnum þegar Atlantshafsbandalagið gerði loftárásir á Líbíu árið 2011 til stuðnings uppreisninni gegn Gaddafi. Flugher landsins gerði ekkert til að verjast árásum flugvéla bandalagsins.

Á árunum 1965 til 1969 voru 65% orrustuflugvéla, sem skotnar voru niður af öðrum orrustuflugvélum, skotnar niður með byssum. Frá 1990 til 2002 var hlutfallið hins vegar 5% – hinum var grandað með flugskeytum. Síðustu tvo áratugi hefur flestum flugvélum auk þess verið grandað á svo löngu færi að flugmenn vélanna sjá hvor annan ekki. Þar leika tæknilegir yfirburðir Bandaríkjanna og bandamanna þeirra lykilhlutverk.