Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Órökstuddar dylgjur í kæru Alþingis

21.11.2013 - 21:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Órökstuddar dylgjur eru í kæru Alþingis vegna deiliskipulags við Landsímareitinn í Kvosinni. Þetta segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs Reykjavíkur.

Hann segir að almannahagsmunir hafi ráðið för en ekki hagsmunir eiganda Landsímahússins. Forsætisnefnd Alþingis kærði ákvörðun Reykjavíkurborgar að samþykkja deiliskipulag við Landsímareit í Kvosinni - til úrskurðarnefndar umhverfis-og auðlindamála. Alþingi telur að með ákvörðun sinni hafi Reykjavíkurborg sýnt þjóðþingi Íslendininga og sögu vanvirðingu og brotið gegn friðhelgi Alþingis.

„Í þessu tilviki var byggingamagnið frá gildandi skipulagi minnkað. Við friðuðum hús sem áður mátti rífa, við fórum í alþjóðlega hugmyndasamkeppni til þess að leiða fram bestu lausnir," segir Dagur. "Auðvitað var málið umdeilt, en mér finnst það fyrir neðan virðingu Alþingis að leggja þetta svona út og ekki, satt best að segja, benda til þess að þeir sem skrifa bréfið eða eru skrifaðir fyrir því, hafi kynnt sér málið neitt sérstaklega vel.“