Órökrétt og ruglandi niðurstaða Evrópudómstóls

22.06.2017 - 01:39
Skjáskot
 Mynd: RÚV
Dómstólar Evrópuríkja mega úrskurða að bólusetningar valdi sjúkdómum, þrátt fyrir að engar vísindalegar sannanir séu fyrir tengslum á milli bóluefnisins og sjúkdómsins. Evrópudómstóllinn komst að þessari niðurstöðu í dag.

Ef ákveðinn fjöldi tilfella sjúkdóms greinist eftir bólusetningu þá dugir það sem sönnun fyrir því að bóluefnið valdi sjúkdómnum, að mati Evrópudómstólsins. Sjúkdómurinn má þó ekki eiga sér sögu innan fjölskyldu hins smitaða og sá sem fær sjúkdóminn þarf að hafa góða heilsufarssögu.

Dómurinn á sér margra ára sögu. Frakki, sem kallaður er J.W. í dómsgögnum, fékk MS taugasjúkdóminn ári eftir að hafa verið bólusettur gegn lifrarbólgu B árið 1998. J.W. lést árið 2011. Fimm árum áður en hann lést kærði hann Sanofi Pasteur lyfjafyrirtækið, sem framleiddi bóluefnið. Áfrýjunardómstóll í Frakklandi tók málið fyrir og sýknaði lyfjafyrirtækið, enda fundust engar vísindalegar sannanir fyrir orsakasamhengi á milli bóluefnisins og MS sjúkdómsins. Úrskurðinum var áfrýjað til hærra dómstigs í Frakklandi, sem vísaði málinu áfram til Evrópudómstólsins.

Ekki dómur í máli J.W.

Í úrskurði Evrópudómstólsins segir að þetta sé ekki dómur í máli J.W., heldur séu þetta leiðbeiningar til annarra dómstóla innan Evrópusambandsins í sambærilegum málum. Dómstólar ríkja Evrópusambandsins fá því fullt leyfi til þess að kveða upp eigin úrskurð í svipuðum málum. Þeir verða sjálfir að meta hvort orsakasamhengi sé á milli bólusetninga og annarra sjúkdóma miðað við málsgögn í hverju máli fyrir sig, án þess að að reiða sig á framburð sérfræðinga. 

Vísindamenn ósáttir

Smitsjúkdóma- og ónæmisfræðingar, auk annarra sérfræðinga, eru verulega ósáttir við úrskurð Evrópudómstólsins. Peter Openshaw, formaður Ónæmisstofnunar Bretlands og prófessor við tilraunalyfjafræði við Imperial College í Lundúnum segir í samtali við CNN að dómurinn valdi verulegum áhyggjum. Engar vísindalegar sannanir séu fyrir því að að bóluefnið fyrir lifrarbólgu B, eða annað bóluefni sem notað er í dag, tengist á nokkurn hátt MS sjúkdómnum. Það sé órökrétt og ruglandi að segja að orsakasamhengi sé á milli bóluefnis og MS og segja á sama tíma að það séu engar vísindalegar sannanir fyrir tengslum þar á milli.

Tony Fox, starfsmaður við lyfjafræðideild King's College í Lundúnum, segir allt eins hægt að spyrja sig hvers vegna milljónir bólusettra fái ekki MS sjúkdóminn þrátt fyrir tengslin, og hvers vegna fjöldi fólks fái MS þrátt fyrir að hafa aldrei verið bólusettir.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi