Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Örnamaðurinn“ settur upp víða um land

19.07.2016 - 13:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nýtt skilti, sem bannar fólki að ganga örna sinna, hefur verið sett upp víða um land í sumar. Til að mynda hafa bæjaryfirvöld í Stykkishólmi sett upp nokkur slík, meðal annars við afleggjarann að bænum Ögri. Bóndinn á bænum segir skiltið svínvirka.

Íslenskir ferðamenn hafa margir hverjir orðið varið við nýja tegund af skilti víðs vegar um land. Skiltið er bannskilti og sýnir mann sem situr á hækjum sér og hefur hægðir. Margir hafa eflaust talið það létt grín er svo er ekki.

„Ég bjó til fyrsta svona skiltið í sumar, af gefnu tilefni,“ segir Þorsteinn Gíslason, eigandi SG-Merkinga. Fólk hafi verið orðið leitt á því að ferðamenn hafi létt á sér á landi þeirra. Önnur skilti séu líka að verða vinsæl eins og skilti sem bannar fólki að tjalda og skilti sem banna drónaflug. 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðrún Hauksdóttir - RÚV
„Örnamaðurinn“ – Skilti við afleggjarann að Ögri

Segir skiltin virka

Við afleggjarann að Ögri í Stykkishólmi er búið að setja upp skilti til að sporna gegn því að fólk tjaldi þar eða geri þarfir sínar. Guðrún Hauksdóttir, bóndi í Ögri, segir að skiltið svínvirki. Í fyrra hafi ferðamenn lagt bílum sínum við afleggjarann og gist þar. Engin salerni séu á staðnum og engin aðstaða fyrir ferðamenn. Hún hafi látið bæjaryfirvöld vita af vandamálinu í fyrra og þau hafi brugðist við með því að setja skiltin upp.

„Í fyrrasumar voru kannski 6 til 7 bílar þarna á hverjum degi þrátt fyrir að tjaldstæðin séu skammt hér frá. Nú er þetta vandamál úr sögunni,“ segir Guðrún.

Örnamanninn, eins og gárungar kalla hann, er að finna víða á Vesturlandi, Suðurlandi og Norðausturlandi, til að mynda í Djúpafirði, við Hunkubakka og í Dalasýsl,u og eru þau ýmist hringlaga eða ferhyrnd. Hvort þeim eigi eftir að fjölga enn frekar verður að koma í ljós.

Mynd með færslu
 Mynd: Guðrún Hauksdóttir - RÚV
Skilti sem bannar eitt og annað við afleggjarann að Ögri
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þetta skilti er við afleggjara nærri Hunkubökkum